Pínulítill en flýgur 10.000 km til Perú

05.04.2019 - 19:39
Mynd: Einar Rafnsson / RUV
Vísindamenn hafa nú leyst ráðgátuna um það hvert óðinshanar fljúga þegar þeir yfirgefa varpstöðvar sínar á Íslandi á haustin. Þessi smái vaðfugl, sem aðeins vegur 40 grömm, flýgur tíu þúsund kílómetra leið til þess að geta gætt sér á ansjósum úti fyrir ströndum Perú yfir veturinn.

Óðinshani er lítill vaðfugl. Hann flýgur hratt og flöktir mikið. Oftast sést hann á sundi. Óðinshani hringsnýst á sundi og þyrlar upp fæðu, dýfir gogginum ótt og títt í vatnið og tínir upp smádýr eins og rykmý, brunnklukkur og smákrabbadýr. Hann er sums staðar kallaður skrifari vegna þess hvernig hann hringsnýst á pollum og tjörnum og virðist skrifa á vatnsborðið með goggnum, að því er kemur fram á vef Náttúruminjasafnins.

Mynd með færslu
 Mynd:

Óðinshani vegur aðeins um 40 grömm. Og nú hafa nýjar rannsóknir kollvarpað eldri hugmyndum um hvert fuglinn flýgur þegar hann yfirgefur Ísland á haustinn. Ævar Petersen fuglafræðingur er einn þeirra sem vann að rannsókninni.

„Þessi tegund óðinshani er ein af fáum fuglategundum sem við vissum ekkert hvert færi á veturna. Menn voru svona að spá í það að þeir gætu hugsanlega farið á Arabíuskaga eða Sómalíusvæðið,“ segir Ævar.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Ingvarsson - RÚV

Ljósriti var festur á fuglana. Tækið nemur sólarljós og útfrá halla þess er hægt að finna staðsetningu. Og þá kom í ljós hvert óðinshanarnir fljúga.

„Þeir fara Kyrrahafsins og halda sig þar yfir vetrarmánuði. Þeir halda sig á svæðinu þarna út af Perú,“ segir Ævar og bendir á að þar séu góð ansjósumið sem óðinshani kunni vel að meta.

Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV

En hvernig í ósköpunum getur þessi litli, 40 gramma fugl, flogið tíu þúsund kílómetra leið og haldið sig allan veturinn úti á reginhafi?

„Ja, hann tekur þetta í stökkum svolítið. Ef hann er þreyttur getur hann í raun og veru alltaf hvílt sig á sjó vegna þess að þó að hann sé vaðfugl, svona eins og heiðlóa og spói, þá eru óðinshanar með blöðkur á fótunum, svokallaðar sundblöðkur og geta þess vegna synt,“ segir Ævar.

Óðinshani er hátt í þrjá mánuði á leiðinni suður um haf en ekki nema um mánuð að fljúga til baka til Íslands í maí. Rannsóknin leiddi jafnframt í ljós að óðinshanar sem verpa á Íslandi, Grænlandi og Hjaltlandseyjum og fljúga til Kyrrahafs út af Perú á haustin, eru lítið eitt stærri og með stærra vænghaf en þeir óðinshanar sem fljúga frá Skandinavíu og Vestur-Rússland til Arabíuskaga.

 

Mynd: Kristinn Ingvarsson / RÚV

Óðinshani er óvenjulegur fugl. „Það er karlfuglinn sem ungar út eggjunum og sér algerlega um ungana og uppeldi þeirra,“ segir Ævar. Kvenfuglinn sér aðeins um að verpa eggjunum.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi