Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Pílagrímar fá að fara frá Katar til Mekka

17.08.2017 - 02:08
Erlent · Asía · Katar · Sádi-Arabía
epa04950237 (FILE) A file picture dated 20 September 2015 showing Muslim pilgrims as they circumvent around the Kaaba at the Masjid al-Haram Mosque, Islam's holiest site, in Mecca, Saudi Arabia, 20 September 2015. The Haj pilgrimage 2015 takes place
 Mynd: EPA
Landamæri Sádí Arabíu að Katar verða opin pílagrímum sem leggja í árlega för til Mekka á næstunni. Þetta er gert samkvæmt skipun Salmans konungs Sádí Arabíu. Þetta er í fyrsta sinn sem landamærin verða opnuð frá 5. júní, þegar Sádar, Egyptar, Barein og Sameinuðu Arabísku Furstadæmin slitu stjórnmálasamskiptum við ríkið.

Ákvörðun konungsins var tekin skömmu eftir fund krónprinsins Mohammed bin Salmans með sendifulltrúa frá Doha, þeim fyrsta frá því ríkin slitu samskiptum. AFP fréttastofan hefur eftir yfirlýsingu konungsfjölskyldunnar að konungurinn ætli að senda einkaþotur eftir pílagrímum til Katars á sinn kostnað.

Öllum samgönguleiðum var lokað á milli Katars og ríkjanna fjögurra sem slitu samskiptum við ríkið. Þau saka stjórnvöld í Katar um að styðja við bakið á hryðjuverkasamtökum og vera of náin Írönum. Stjórnvöld í Katar neita alfarið ásökununum og segja þetta tilraun til þess að knésetja ríkið, sem talið er það ríkasta í heimi miðað við höfðatölu.