Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Pétur rýnir í hagkvæmni nýs leikvangs

Mynd með færslu
 Mynd: Hallgrímur Indriðason - RÚV

Pétur rýnir í hagkvæmni nýs leikvangs

09.09.2015 - 13:56
KSÍ hefur samið við ráðgjafafyrirtækið Borgarbrag til að leiða vinnu við gerð hagkvæmniskönnunar vegna hugsanlegrar uppbyggingar á nýjum leikvangi í Laugardal. Ráðgjafafyrirtækið er í eigu Péturs Marteinssonar, fyrrverandi landsliðsmanns. Hann verður í forsvari fyrir verkefnið.

Þetta kemur fram á vef KSÍ. Pétur, sem er oft kenndur við gistiheimilið Kex, stofnaði Borgarbrag í byrjun ársins með Guðmundi Kristjáni Jónssyni, skipulagsfræðingi. Fram kom í Viðskiptablaðinu fyrr í þessum mánuði að félagið hefði þá hugsjón að leiðarljósi að stuðla að betra borgarumhverfi.

Á vef KSÍ kemur fram að knattspyrnusambandið fagni umræðu um mögulega stækkun Laugardalsvallar. Sambandið vill þó ítreka að verkefnið sé á frumstigi og ótal spurningum sé ósvarað hvort raunhæft sé að ráðast í verkefni af þessari stærðargráðu.

Eftir að karlalandsliðið tryggði sér sæti á EM eftir markalaust jafntefli við Kasakstan fóru af stað miklar vangaveltur um hvort ekki þyrfti nýjan þjóðarleikvang. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði til að mynda í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 að stjórnvöld væru reiðubúin til að skoða þetta með KSÍ, borginni og fjárfestum sem vilja mögulega koma að þessu. „„Það liggja ekki peningar á lausu í þetta en menn hljóta þá að skoða hvort þetta sé fjárfesting sem gæti jafnvel borgað sig,“ sagði Sigmundur Davíð.

Rekstur Laugardalsvallar hefur verið erfiður undanfarin ár. Samkvæmt ársreikningi KSÍ fyrir árið 2013 var eigið fé þjóðarleikvangsins neikvætt um 66 milljónir.  KSÍ og Reykjavíkurborg ákváðu á síðasta ári að leggja vellinum til sömu upphæð vegna aukins rekstrarkostnaðar.