Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Peskov: Fólk Clintons fundaði líka með Rússum

12.03.2017 - 23:17
Mynd með færslu
Dimitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml. Mynd: EPA - EPA
Ráðgjafar Hillaryar Clinton funduðu með rússneska sendiherranum í Washington í aðdraganda forsetakosninganna vestra í nóvember á síðasta ári. Dimitri Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml, greindi frá þessu í viðtali við CNN-fréttastöðina. Um leið vísaði hann á bug öllum ásökunum um að Rússar hafi haft nokkur afskipti af forsetakosningunum. Peskov segir bandarísk yfirvöld og fjölmiðla draga upp afar fjandsamlega mynd af Rússum. Það virðist honum hvort tveggja undarlegt og afar hryggilegt.

„Ef við skoðum sumt af því fólki, sem tengdist kosningabaráttu Hillaryar Clinton, þá kemur væntanlega í ljós, að Sergei Kislijak [sendiherra Rússa í Washington] átti marga fundi með þeim,“ sagði Peskov og tók fram að þeir fundir hafi ekki snúist um kosningarnar eða framkvæmd þeirra og ekki mætti túlka þá sem afskipti af kosningaferlinu.

16 Bandarískar leyniþjónustustofnanir hafa ítrekað fullyrt að Rússar hafi freistað þess að hafa áhrif á forsetakosningarnar síðasta haust, Donaldi Trump í vil. Spurður út í þetta, segir Peskov að hann hafi enn ekki séð neinar trúverðugar sannanir fyrir þessum fullyrðingum.

Þónokkrir ráðgjafar og samherjar Trumps hafa verið gagnrýndir síðustu mánuði vegna funda þeirra með rússneska sendiherranum og Michael T. Flynn, sem Trump skipaði þjóðaröryggisráðgjafa skömmu eftir embættistökuna, þurfti að taka pokann sinn eftir að í ljós kom að hann hafði sagt ósatt um samskipti sín við Kislijak í kosningabaráttunni og eftir hana, en áður en hann var skipaður í embætti.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV