Persónuverndarlög, hvað er það?

Mynd: RÚV / RÚV

Persónuverndarlög, hvað er það?

06.06.2018 - 11:02
Ný persónuverndarlöggjöf er kannski eitthvað sem að ekki margir eru meðvitaðir um en hins vegar hafa líklegast flestir orðið varir við það að hafa þurft að samþykkja nýja skilmála tengda ýmiskonar forritum og vefsíðum.

Pétur Marteinn, sérlegur stjórnmálaspekingur Núllsins, fór yfir þessi nýju lög sem að tóku gildi 25.maí. Þau hafa að vísu ekki verið formlega samþykkt á Alþingi en vonast er til þess að málið verði afgreitt áður en að þingið fer í sumarfrí.

Löggjöfin er sameiginleg í Evrópu og  er í grunnin hluti af löggjöf Evrópusambandsins. Íslendingar eiga ekki aðild að ESB en af því að við erum  hluti af EES, Evrópska efnahagssvæðinu, tekur löggjöfin gildi hér á landi líka. 

Löggjöfin sjálf er fyrirferðamikil en snýr aðallega að fyrirtækjum sem að halda persónuverndarupplýsingum í einhverjum tilgangi. Einstaklingar munu líklegast helst taka eftir breytingum hvað varðar skilmála á netveitum eins og til að mynda Facebook, Instagram og Twitter.

„Í þessari nýju löggjöf eru sterkar kröfur um samþykki og að samþykkið sé meðvitað,“ segir Pétur. Því mun fylgja að skilmálarnir sem oftar en ekki þarf að samþykkja við hin ýmsu tilefni mega ekki lengur vera hundrað blaðsíður og óskiljanlegir. Þeir þurfa að vera skýrir og á mannamáli, þannig að þú vitir alltaf hvað þú ert að samþykkja.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Ingi Garðarsson o - RÚV

En hvaða fyrirtæki eru að nota persónuupplýsingarnar þínar og afhverju? „Allt sem er frítt á netinu er frítt afþví að viðkomandi fyrirtæki er að safna persónuupplýsingum. Þær eru svo seldar til fyrirtækja sem að nota þessar upplýsingar til þess að sérsníða auglýsingar að þér.“ 

Þetta geta verið frekar venjulegar upplýsingar um þig eins og til dæmis nafn, búseta og aldur en stærri fyrirtæki eins og Google og Facebook hafa getuna til þess að safna og skrá hvert einasta klikk hjá þér, hvort sem er í tölvu eða í símanum þínum.

Pétur Marteinn Urbancic Tómasson er vikulegur gestur í Núllinu á miðvikudögum þar sem að hann fer yfir pólitísk mál hverrar stundar. Hægt er að hlusta á innslagið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.