Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Persónuvernd vill upptöku Báru og Klausturs

06.02.2019 - 14:47
Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Persónuvernd hefur óskað eftir því við Klausturbar að fá upptökur úr eftirlitsmyndavélum frá kvöldinu í nóvember þegar þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins sátu að sumbli og töluðu illa um samstarfsfólk sitt og aðra. Persónuvernd vill einnig fá afrit af upptöku Báru Halldórsdóttur sem hljóðritaði samtal þingmannanna.

Persónuvernd segir frá þessu á vefsíðu sinni í dag „vegna fjölda fyrirspurna“. Fréttastofa hefur reynt að fá upplýsingar um málið hjá Persónuvernd í morgun en ekki orðið ágengt.

Reimar Pétursson, lögmaður Miðflokksþingmanna, sendi Persónuvernd erindi þar sem óskað er eftir að Persónuvernd beiti sér í Klausturmálinu og afli sönnunargagna á borð við myndbandsupptökur, vegna dómsmáls sem fyrirhugað er að sækja gegn Báru.

Persónuvernd svaraði erindinu í gær. Í tilkynningu frá Persónuvernd segir að niðurstöðu sé að vænta í málsmeðferð Persónuverndar í Klausturmálinu um næstu mánaðamót, febrúar-mars.