Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Persónuvernd hafnaði kröfum Miðflokksmanna

29.04.2019 - 17:44
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórn Persónuverndar hafnaði nú síðdegis kröfu lögmanns fjögurra þingmanna Miðflokksins um frekari gagnaöflun í Klausturmálinu. Krafan fólst meðal annars í því að þingmennirnir vildu fá upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum um greiðslur inn á reikning Báru Halldórsdóttur á tímabilinu 15. nóvember til 15.desember og upplýsingar um smáskilaboð og símtöl til Báru.

Í úrskurði Persónuverndar, sem fréttastofa hefur undir höndum, kemur fram að Persónuvernd telji sig ekki hafa heimild til öflunar upplýsinga frá fjarskiptafyrirtækjum og fjármálafyrirtækjum vegna meðferðar kvörtunarmáls sem varði ekki viðkomandi fyrirtæki heldur í þessu tilviki Báru Halldórsdóttur.  Þá telur stjórn Persónuverndar að atvik málsins verða talin nægilega upplýst til að Persónuvernd geti komist að efnislegri úrlausn. 

Þess er nú beðið að Persónuvernd úrskurði endanlega um málið en stjórn Persónuverndar hittist á reglulegum fundum, yfirleitt í lok hvers mánaðar.

Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að lögmaður þingmannanna telji sig hafa óræka sönnun fyrir því að Bára hafi undirbúið aðgerð sína vel. Hún hafi virt aðstæður fyrir sér kyrfilega í bíl sínum fyrir utan Klaustur, tekið mynd af þingmönnunum þegar hún steig út úr bílnum og sest niður í sama rými og þeir og hafið upptöku jafnskjótt. 

Hann sagði að aðgerðir Báru væru tæpast á færi einnar manneskju og því benti allt til þess að um „samverknað hafi verið að ræða,“ segir í bréfi lögmanns fjórmenninganna.  Þær væru þess eðlis að fleiri en einn hafi þurft til þar sem fylgjast hafi þurft með ferðum manna, afla sér búnaðar, læra á hann og útfæra og æfa aðgerðir. 

Í ákvörðun Persónuverndar eru andsvör lögmanna Báru rakin stuttlega. Þar er því mótmælt að að einhver hafi fengið Báru til að taka upp umræddar samræður. Stofnunin nefnir auk þess að lögmenn Báru hafi notað orðalagið „ýmsar dylgjur“ um eitthvað sem komi fram í bréfi frá lögmanni þingmannanna fjögurra. Þess sé krafist að málinu í heild verði vísað frá þar sem kjarni þess lúti að mörkunum milli tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs. Það sé ekki stofnunar eins og Persónuverndar að skera úr um heldur dómstóla.

Persónuvernd hefur haft Klausturmálið til umfjöllunar síðan um miðjan desember. Þá sendi lögmaður fjögurra þingmanna Miðflokksins stofnuninni bréf þar sem þess var krafist að rannsakað yrði hver hefði staðið að upptöku á samtali sex þingmanna á vínveitingastaðnum Klaustri.  Málið var sett á bið eftir að þingmenn Miðflokksins fóru með málið fyrir héraðsdóm og síðar Landsrétt þar sem kröfum þeirra var hafnað.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV