Persónuvernd bíður niðurstöðu Landsréttar

21.12.2018 - 14:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórn Persónuverndar ákvað á fundi sínum í gær að óska eftir upptöku Báru Halldórsdóttur af samræðum sex þingmanna á barnum Klaustri. Þá ætlar Persónuvernd einnig að óska eftir upptökum úr eftirlitsmyndavélum á Klaustri frá þeim tíma er samtölin voru tekin upp, að því er fram kemur í tilkynningu frá stofnuninni. Þetta verður þó ekki gert fyrr en niðurstaða Landsréttar liggur fyrir.

Frestur til að afhenda upptökurnar og koma á framfæri athugasemdum vegna ákvörðunar Persónuverndar rennur út 11. janúar. 

Eftir fund stjórnar Persónuverndar í gær bárust þær fréttir að úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, um að hafna kröfu lögmanns þingmannanna um sönnunarfærslu fyrir dómi, hefði verið kærður til Landsréttar. Persónuvernd ætlar að bíða með að óska eftir umræddum upptökum þar til niðurstaða Landsréttar um úrskurðinn liggur fyrir. 

Málið er nú í hefðbundnum farvegi hjá Persónuvernd, að því er segir í tilkynningunni. Ákveðið hefur verið að senda lögmönnum Báru gögn málsins og veita þeim kost á að koma athugasemdum á framfæri.