Persónuvernd afgreiðir Klausturmál ekki í dag

31.01.2019 - 10:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Klausturmálið og mál vefsíðunnar Tekjur.is verða ekki afgreidd á stjórnarfundi Persónuverndar í dag. Þetta staðfestir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, í samtali við fréttastofu. Líklegt er því að þessi tvö mál verði afgreidd á næsta stjórnarfundi í lok næsta mánaðar.

Persónuvernd hefur haft Klausturmálið til umfjöllunar síðan um miðjan desember. Þá sendi lögmaður fjögurra þingmanna Miðflokksins stofnuninni bréf þar sem þess var krafist að hún tæki til rannsóknar hver hefði staðið að upptöku á samtali sex þingmanna á vínveitingastaðnum Klaustri. 

Persónuvernd ákvað síðan að bíða með að taka málið til umfjöllunar eftir að þingmenn Miðflokksins fóru með málið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og síðar Landsrétt. Bæði dómstigin höfnuðu kröfu þeirra um gagnaöflunarvitnaleiðslur fyrir dómi vegna hugsanlegrar málsóknar á hendur Báru Halldórsdóttur sem hefur gengist við því að hafa tekið samtal þingmannanna upp.

Mál vefsíðunnar Tekjur.is vakti einnig mikla athygli. Þar var hægt að nálgast tekjur allra Íslendinga yfir 18 ára aldri gegn gjaldi. Persónuvernd lokaði vefsíðunni í lok nóvember þar sem talið var að birting þessara upplýsinga væri óheimil. Í úrskurði Persónuverndar kom fram að stofnunin ígrundaði að sekta forsvarsmenn vefsíðunnar.