Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Persónuleg í sjötta veldi“

Mynd: Benedikt / Benedikt

„Persónuleg í sjötta veldi“

07.11.2017 - 11:29

Höfundar

„Þetta eru stutt ljóð, eða prósatextar, sem segja sögu af tveimur konum. Það er ung kona í Berlín sem segir söguna af því hvernig hún fór að leigja með eldri konu sem er fyrrum pönk-rokkari, Flórída,“ segir Bergþóra Snæbjörnsdóttir aðspurð um umfjöllunarefni sinnar nýjustu ljóðabókar, Flórída.

Flórída er önnur ljóðabók Bergþóru  en hún gaf út Daloon daga árið 2015. Bergþóra gaf einnig út textasafnið Dagar undrabarnsins eru á enda, árið 2013, auk þess sem hún hefur komið að handritun kvikmynda, heimildamyndagerð og  bókaútgáfu. Bergþóra myndar einnig, ásamt myndlistakonunni Rakel McMahon, gjörningatvíeykið Wunderkind Collective.

„Það er margt þarna sem er persónulegt og annað er svona Hvað ef? Þetta er kannski persónulegt í sjötta veldi. Svona sjötta veldi af raunveruleikanum,“ segir Bergþóra sem segir það misjafn hvort hún setji sig í ákveðnar stellingar varðandi efnistök og form.

„Ég þarf að sitja mikið við og skrifa, en þessi bók er  búin að vera ótrúlega lengi á leiðinni. Ég var alltaf að setja hana til hliðar og fresta henni því mér fannst hún pínu erfið. Ég byrjaði samt þannig á henni að ég settist niður, í árslok 2013, eða ársbyrjun 2014, og það kom kom bara sprengja á einu kvöldi, ég hugsa svona 60% af beinagrindinni. En svo er ég mikill fullkomnunarsinni og er alltaf að breyta og bæta.“

Bergþóra stundaði nám í sálfræði við Háskóla Íslands áður en hún sneri sér að ritlistinni og segir það að einhverju leyti hafa nýst sér við ljóðagerð og gjörninga. Mannlegt eðli hafi alltaf heillað hana.

„Ég hef líka alltaf verið að skrifa en ég er líka rosalega praktísk. Þegar ég var lítil ætlaði ég alltaf að verða rík,“ segir Bergþóra og  hlær. „Ég var að lesa gamla dagbók þar sem fram kemur að planið mitt var að verða einstæð móðir með tvö börn. Og ég hafði svo miklar áhyggjur af því hvernig ég ætti að eignast nógan pening til að borga skuldir. Og svo þyrfti ég að læra að gera skattframtal. Þannig að ég ætlaði að verða lögfræðingur.“

Rætt var við Bergþóru Snæbjörnsdóttur ljóðskáld í Víðsjá á Rás 1. Viðtalið í heild sinni má hlusta á í spilaranum hér að ofan.