Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Perlan sérsniðin fyrir steypireyði

Mynd með færslu
 Mynd:

Perlan sérsniðin fyrir steypireyði

21.05.2013 - 19:30
Perlan er eins og sérsniðin fyrir beinagrind steypireyðar sem rak á land fyrir þremur árum. Þetta segir forstöðumaður Náttúruminjasafnsins. Aðeins eitt annað safn í heiminum geti státað af því að sýna jafn heillega beinagrind.

Steypireyðina rak á land á Skaga í Austur-Húnavatnssýslu í ágúst 2010.  „Hún var flensuð á staðnum og urðuð en síðan var hún tekin upp og flutt suður,“ segir Hilmar Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands. 

Það er þekkt aðferð að urða beinagrindur stórra dýra til láta örverur sjá um að fínhreinsa utan af beinunum. Maðkar fengu að gera sér veislu úr steypireyðinni, segir Hilmar. Hluti beinagrindarinnar er nú geymdur á Reykjanesi 

„Steypireyður er stærsta dýr jarðar sem menn vita að hafi nokkurn tímann lifað á jörðinnim,“ bendir Hilmar á.  Bein steypireyðar eru afar létt og frauðkennd enda er dýrið nánast þyngdarlaust í sjónum. Það vill því aðeins molna úr þeim, einkum höfuðbeinunum, þegar þau þorna.

Beinagrindin er afar heilleg miðað við hvalbein almennt. Beinin verða svo húðuð. Afar sjaldgæft er að steypireyði reki á land í heilu lagi.

„Svona heil beinagrind og samsett í söfnum er held ég ekki til nema kannski á einu safni,“ segir Hilmar. „Þannig að við höfum hérna mjög áhugaverðan og dýrmætan grip í höndunum.Hún er með þeim allra stærstu líka, hún var um 24 metrar þegar hún var flensuð.“

Hún vó um 120 tonn og var því nærri þrefalt þyngri en stærsta risaeðlan. Tungan í hvalnum var álíka þung og fíll og hjartað eins og Volkswagen bjalla. Það þarf þriggja til fimm manna teymi í þrjá mánuði til að setja beinagrindina upp. Hilmar vonast til þess að það verði í Perlunni.
„Þetta er jú höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum og svona gripur er náttúrulega flott krúnudjásn í höfuðsafninu,“ segir hann. 

„Ég sé hana fyrir mér til að byrja með hér á ská uppi í þessu rými og líklega fer betur á því að hafa hausinn niðri við jörð, hann er svo þungur að líklega er skynsamlegast að láta hann hvíla á stöplum,“ segir Hilmar. 

Hæpið sé að áætlanir um að opna safnið eftir rúmt ár gangi eftir. Þar sem nú er kaffitería verður hluti af sýningarrými, sem og veröndin fyrir utan og líklega verður komið upp milligólfum. Þá verður dýrgripur í einum af tönkunum. „Líklega verður geirfuglinn til sýnis, það er nú ekki alveg vitað hversu mikið eða oft hann verður frammi við, hann er mjög viðkvæmur,“ segir Hilmar. 

Fiskar og fuglar verða til sýnis og hugsanlegt að að flóru landsins verði gerð skil fyrir utan safnið. Pálmatrén í anddyri Perlunnar koma hinsvegar til með að fjúka mjög fljótlega.