Perez formaður Demókrataflokksins

26.02.2017 - 04:27
epa05815355 Interim chair Donna Brazile (L) hands the gavel to newly-elected DNC Chair Tom Perez during the Democratic National Committee (DNC) Winter Meeting in Atlanta, Georgia, USA, 25 February 2017. The three-day meeting includes the election of a new
Donna Brazile, settur formaður flokksins afhendir nýkjörnum formanni, Tom Perez, fundarhamarinn, til að marka formannsskiptin.  Mynd: EPA
Tom Perez var í gær kosinn nýr formaður Demókrataflokksins í Bandaríkjunum, á flokksstjórnarfundi í Atlanta í Georgíu, þeim fyrsta sem haldinn hefur verið eftir tapið í forsetakosningunum. Perez, sem er hálfsextugur, var ráðherra atvinnumála síðustu fjögur árin í stjórnartíð Obamas. Áður starfaði hann sem aðstoðarríkissaksóknari við mannréttindadeild dómsmálaráðuneytisins. Hann er sonur innflytjenda frá Dóminíska lýðveldinu og er fyrsti formaður Demókrata með rætur til Mið- eða Suður-Ameríku.

Flokksformenn hafa nokkru minna vægi í pólitíkinni vestra en venjan er til á Íslandi og í Evrópu. Formaðurinn mun þó gegna mikilvægu hlutverki í endurskipulagningu og uppbyggingu flokksins fyrir næstu þingkosningar, 2018, þar sem Demókratar leggja allt kapp á að reyna að hrifsa meirihlutann í fulltrúadeildinni úr höndum Repúblikana.

Perez telst til hinnar rótgrónu og hefðbundnu valdablokkar flokksins og var dyggur stuðningsmaður Hillarýar Clinton í forkosningunum. Helsti keppinautur hans, músliminn Keith Ellison, er aftur á móti einn innsti koppurinn í búri Bernie Sanders. Upphaflega voru átta í framboði en að lokum stóð kosninginn milli þeirra Perezar og Ellisons. Perez fékk 235 atkvæði, en Ellison 200. Perez lagði í kjölfarið til að Ellison yrði varaformaður, og varð það úr. 

Perez tekur við formannsembætti af settum formanni flokksins, Donnu Brazile. Hún tók við formennskunni til bráðabirgða í júlí síðastliðnum, eftir að Debbie Wasserman Schultz neyddist til að segja af sér þegar tölvupóstum var lekið, sem þóttu sýna að hún væri hliðhollari Clinton og andsnúnari Sanders en góðu hófi gegndi fyrir manneskju í hennar stöðu.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV