Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Perez de Cuellar er látinn, 100 ára að aldri

Mynd með færslu
Javier Perez de Cuellar heilsar Ban Ki Moon, sem var framkvæmdastjóri SÞ frá 2007 til 2017, þegar sá síðarnefndi var gerður að heiðursdoktor við San Marcos-háskólann í Lima Mynd: epa
Javier Perez de Cuellar, fyrrverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, er látinn, eitt hundrað ára að aldri. Sonur hans, Francisco Perez de Cuellar, greindi frá þessu í gærkvöld. „Faðir minn er látinn, eftir erfiða viku. Hann dó klukkan 8.09 í kvöld (01.09 að íslenskum tíma) og hvílir nú í friði" sagði Francisco í viðtali við perúska ríkisútvarpið.

Perúmaðurinn de Cuellar var aðalritari Sameinuðu þjóðanna frá 1981 til 1991. Antonio Guterres, núverandi framvkæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sendi honum hamingjuóskir á hundrað ára afmælinu hinn 19. janúar síðastlðinn og þakkaði forvera sínum fyrir framlag hans og árangur í starfi. Meðal verkefna sem de Cuellar þurfti að takast á við í sinni embættistíð voru stríð Írans og Íraks og borgarastríðið í El Salvador. Hann verður jarðsettur á föstudag. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV