Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Pence á samkomu andstæðinga fóstureyðinga

27.01.2017 - 05:50
Mynd með færslu
Mike Pence, verðandi varaforseti Bandaríkjanna. Mynd: EPA - BLOOMBERG POOL
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, mun ávarpa fjöldasamkomu samtaka gegn fóstureyðingum í Bandaríkjunum í dag, March for Life. Hann verður fyrsti varaforsetinn í sögunni til þess að ávarpa slíka samkomu, og fyrsti varaforsetinn eða forsetinn til þess að mæta á hana í eigin persónu.

Pence hitti leiðtoga samkomunnar á skrifstofu sinni í gærkvöld. Hann skrifaði á Twitter að hann hlakki til að fá að ávarpa samkomuna sem fer fram í dag, föstudag.

Marc Lotter, talsmaður hans, staðfestir við CNN fréttastofuna að Pence ávarpi hana í eigin persónu. Tveir forsetar hafa ávarpað March for Life í 46 ára sögu samkomunnar, þeir Ronald Reagan og George W. Bush, en báðir gerðu það í gegnum síma.

Pence er svarinn andstæðingur fóstureyðinga. Sem ríkisstjóri Indiana skrifaði hann undir nokkrar hörðustu löggjafir gegn fóstureyðingum sem fyrirfinnast í Bandaríkjunum. Jeanne Mancini, formaður March for Life, segir varaforsetann hafa verið vin sem hafi verið duglegur að tala gegn fóstureyðingum á ferli sínum. Hún er ánægð með þá sögulegu ákvörðun hans að ávarpa samkomuna í eigin persónu. 

Samkoman hefur verið haldin í höfuðborginni Washington árlega síðan 1974 til þess að mótmæla úrskurði hæstaréttar Bandaríkjanna frá árinu áður þar sem fóstureyðingar voru lögleiddar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV