Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Peð í heiminum

Mynd: RÚV / RÚV

Peð í heiminum

30.09.2017 - 11:09

Höfundar

Kristín Ómarsdóttir sendi frá sér nýja ljóðabók á dögunum, hennar fyrstu í tæplega áratug. Bókin er tileinkuð foreldrum Kristínar, en hún er fyrsta verkið sem hún gefur út eftir fráfall þeirra.

„Ég byrjaði bara að skrifa hana óvænt og held kannski að ég hafi ekkert ætlað að gefa hana út,“ segir Kristín Ómarsdóttir í viðtali við Egil Helgason um nýjustu ljóðabókina, Kóngulær í sýningargluggum. „Ég byrjaði að skrifa hana í höndunum í teiknibók. Svo gleymdi ég handritinu í eitt ár. Hún var hálfgert bara fyrir mig upphaflega, sem ég held að sé dálítið gott.“

Þetta er ekki persónuleg bók segir hún. „Ég er ekkert svo viss um að ég yrki mikið um sjálfa mig þannig lagað. Ég hef samt skrifað mjög persónuleg ljóð. Ég er einhvern veginn að vinna bara upp úr því sem ég les og verð fyrir og heyri. Ég er svona peð í heiminum að gleypa við honum.“

Mynd: Jórunn Sigurðardóttir / Jórunn Sigurðardóttir
Kristín Ómarsdóttir les nokkur ljóð úr bókinni.

Erfitt að tjá sig í mæltu máli

Kristín segist hafa frá barnsaldri átt erfitt með að tjá sig í mæltu máli – en annað gildi um ljóðin. „Sem rithöfundur hef ég þurft að standa fyrir máli mínu og ég hef einnig kennt smá og þá æfist maður eins. En í raun og veru er ég frekar málhölt og á erfitt með að tjá tilfinningar með orðum,“ segir Kristín. „Ég er búin að yrkja síðan ég var krakki og ljóðið er einhvers konar tungumál sem að fylgir mér.“

„Ljóðið talar við mig. Það er eins og á sem að líður við hliðina á mér.“

Kristín hefur helgað sig skáldsagnaskrifum síðustu ár. Síðasta ljóðabók hennar Sjáðu fegurð þína kom út fyrir tæplega áratug. Nú segist hún hins vegar ekki fá frið fyrir ljóðum. „Það var eftir útkomu einnar skáldsögunnar sem ég fór að yrkja þessi ljóð. Ég hef varla fengið frið fyrir ljóðum síðan ég byrjaði á þessu handriti. Þau eru að taka af mér völdin finnst mér.“

Fyrsta verkið sem hún gefur út munaðarlaus

Þetta er fyrsta bókin sem hún semur eftir fráfall foreldra sinna og er hún tileinkuð þeim. „Það er svolítið skrýtið að tileinka bók foreldrum sínum, sem er ekkert persónuleg,“ segir Kristín. „Þegar mamma dó þá fannst mér ekkert vera sérstakur tilgangur í því að skrifa – fyrst hún var dáin. Þetta er það fyrsta sem ég sem munaðarlaus.“

Kristín segir að móðir hennar hafi verið góður lesandi. „Ég var mjög heppin með þennan lesanda. Ég þurfti aldrei að vera hrædd við hann. Ég gat skrifað hvað sem mér datt í hug. Ég var ekki með svona mömmu sem var með siðferðislegar kröfur.“

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Kóngulær í sýningargluggum - Kristín Ó.

Bókmenntir

Flækingurinn - Kristín Ómarsdóttir

Bókmenntir

Kristín Ómarsdóttir þolir ekki ryksuguhljóð

Bókmenntir

Kristín Ómarsdóttir segir frá Flækingnum