PCC frestar byggingu íbúða á Húsavík

23.11.2016 - 11:35
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
PCC Seaview Residences hefur óskað eftir lengri fresti til að hefja byggingu íbúða í Holtahverfi á Húsavík. Félagið óskaði eftir byggingalandi þar í vor. Í deiliskipulagi er gert ráð fyrir um 40 íbúðum á þessu svæði.

PCC Seaview Residences ehf. er dótturfélag þýska fyrirtækisins PCC sem nú byggir kísilverksmiðju á Bakka. Með því að ráðast í byggingu íbúða á Húsavík segist PCC vilja vera virkur þátttakandi í samfélaginu og geta boðið starfsfólki sínu gott íbúðarhúsnæði.

Óskuðu eftir lóðum á nýju byggingarsvæði

Í mars síðastliðnum óskaði félagið eftir því að teknar yrðu frá lóðir fyrir íbúðarhúsnæði á nýju byggingarsvæði í Holtahverfi, í suðurhluta Húsavíkur. Lóðirnar verði fráteknar á meðan fyrirtækið undirbúi slíkt verkefni og svæðið tryggt félaginu til úthlutunar um leið og endanleg ákvörðun liggi fyrir. 

Vildu breyta vinnubúðum í íbúðir

Í ágúst barst Norðurþingi erindi frá PCC Seaview Residences þar sem fram kom að félagið vildi minnka byggingarmagnið og að sveitarfélagið tæki yfir gatnagerð í hverfinu. Þá vill fyrirtækið vildi byggja hluta íbúðanna úr notuðum vinnubúðaeiningum, sem áður voru notaðar austur á Reyðarfirði. Því hafnaði byggðarráð og meirihluti sveitarstjórnar Norðurþings.

Óska eftir sex mánaða fresti

Á síðasta fundi skipulags- og umhverfisnefndar Norðurþings var tekin fyrir beiðni frá PCC Seaview Residences þar sem óskað var eftir því að svæði E í deiliskipulagi Holtahverfis verði áfram tekið frá vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar fyrirtækisins. Beðið var um að ráðstöfun lóðanna yrði framlengd um sex mánuði. 

Samningurinn verði framlengdur út febrúar

Skipulags- og umhverfisnefnd varð ekki við því, en samþykkti að leggja til við sveitarstjórn að fyrri samningur um svæðið verði framlengdur til loka febrúar 2017. Sif Jóhannesdóttir, formaður nefndarinnar, segir að talsverðar viðræður hafi átt sér stað milli sveitarfélagsins og PCC um þetta mál. Engar beiðnir hafi borist frá fyrirtækinu um byggingaleyfi.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi