PCC ætlar að fá allt borgað til baka

25.10.2018 - 14:52
Mynd með færslu
 Mynd: Gaukur Hjartarson - RÚV
Lögmaður PCC á Bakka hefur sent sveitarfélaginu Norðurþingi, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, fjármálaráðuneytinu og Vegagerðinni bréf þar sem fyrirtækið áskilur sér allan rétt til þess að krefja alla viðtakendur um endurgreiðslu á útlögðum kostnaði vegna viðhalds Húsavíkurhöfðaganga. PCC ætlar að sjá um göngin tímabundið, en krefst endurgreiðslu vegna alls kostnaðar. Sveitarfélagið vísar á ríkið, ríkið vísar á Vegagerðina og Vegagerðin segir nei.

Göngin sem enginn vill bera ábyrgð á

Miklar deilur standa nú yfir um ábyrgð á viðhaldi ganganna og segir í bréfinu að vegna þeirrar óvissu sem ríki um málið ætli PCC að sjá um reksturinn á meðan málið er óleyst. Hvort sem kostnaðurinn felist í krónutölum eða launum vegna umsýslu og utanumhalds. 

Í fundarbókun byggðarráðs Norðurþings síðan í gær segir að ráðið ítreki að farið sé fram á að þeir aðilar sem hafi með málið að gera finni lausn á því eins fljótt og mögulegt er. Fyrir viku var bókað að staðan sé alvarleg og geti haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér gagnvart þeim fyrirtækjum sem um þau þurfa að ferðast með hráefni til og frá iðnaðarsvæðinu á Bakka. 

Ríkið þarf að ganga frá málinu hið snarasta

Norðurþing ætlar ekki að taka reksturinn að sér, enda sé það ekki hlutverk sveitarfélagsins, heldur ríkisins. Byggðarráð Norðurþings skoraði á ríkið að ganga frá málinu hið snarsta „svo íslenskt vetrarveður fari ekki að hamla nauðsynlegum samgöngum gegnum göngin með ærnum kostnaði fyrir fyrirtæki á svæðinu.”

Fréttablaðið fékk upplýsingar frá atvinnuvegaráðuneytinu í gær um að Vegagerðin eigi að fara með veghald ganganna, enda sé vandséð hver annar ætti að gera það. Vegagerðin segir hins vegar að stofnuninni sé óheimilt að þjónusta göngin þar sem þau eru ekki hluti af þjóðvegakerfinu og engin almenn umferð leyfð um þau. Stofnunin ætlar því að hætta afskiptum af göngunum 1. nóvember. 

Ríkið vísar á Vegagerðina

Í svari atvinnuvegaráðuneytisins til Fréttablaðsins kemur fram að ríkið sé eigandi ganganna, óháð því hvort litið sé á þau sem þjóðveg eða einkaveg, enda geti ríkið einnig átt einkavegi. Ríkið lét byggja veginn og Vegagerðinni síðan falin framkvæmdin og veghaldið í samræmi við lög. Engin áætlun er því uppi af hálfu ríkisins að göngin séu sérstök ívilnun til PCC á Bakka, heldur séu þau hluti af vegakerfi landsins. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi