Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Páskastrákurinn Friðrik Dór með nýtt lag

Mynd: Aldrei fór ég suður / RÚV

Páskastrákurinn Friðrik Dór með nýtt lag

31.03.2018 - 12:15

Höfundar

Friðrik Dór sendi á skírdag frá sér lag sem heitir „Fyrir fáeinum sumrum“. Hann sagðist á Facebook vera mikill páskastrákur, sem vakti töluverða athygli. „Páskarnir eru bara svo fáránleg hátíð, þess vegna er ég svona mikill páskastrákur,“ sagði Friðrik Dór í viðtal eftir tónleika sína á Aldrei fór ég suður á föstudagskvöld.

„Þetta er lag sem ég samdi fyrir milljón árum, eða tíu, tólf árum. Ég settist niður og gerði tilraun til að gera stuðla og höfuðstafi. En pottþétt braut allar reglur, en úr því varð til einhver smá texti og ég samdi þetta litla lag við,“ segir Friðrik Dór, en hann segir að aðdáendur hans hafi hvatt hann til að gefa lagið út, sem margir höfðu heyrt í lifandi flutningi á Youtube. „Ég varð bara við því úr því að ég er ekki með neitt brjálað í gangi annað í augnablikinu. Það var bara gaman að losa þetta.“

Texti lagsins er hádramatískur. „Hann fjallar um dreng sem sér á eftir ástinni til framandi landa en sér síðan vonarneista þegar hún snýr aftur. En hún brýtur í honum hjartað í annað sinn. Ótrúlega sorglegt.“

Aðspurður um nýja plötu segir Friðrik að það sé ekki von á slíkri. „Ég er svo þrjóskur að það nær enginn að sannfæra mig um að það virki betur heldur en að gefa bara út eitt lag. En kannski á endanum endar þetta í plötu, ég veit það ekki, en mér finnst þett bara rosa góður taktur sem ég er í núna.“

Friðrik Dór ætlar að njóta þess sem eftir er af páskafríinu í bústað með fjölskyldunni. „Og fylgja öllum þessum páskahefðum sem maður hefur búið sér til í gegnum tíðina. Byrja auðvitað á því að skreyta soðin egg, þá sýð ég egg, tek utan af þeim og skreyti svo. Ég skreyti ekki skurnina heldur soðið eggið,“ segir Friðrik.