Að eigin sögn hefur samstarfið gengið vel en Elín semur bæði lag og texta með hjálp frá Reyni. „Ég var komin með hugmynd að viðlagi og fékk Reyni til að hjálpa mér að semja gítarlínu yfir,“ segir Elín. Þau segjast skilja hvort annað vel og gera sér góða grein fyrir því hvað hitt fílar. „Ég var með það í hausnum hvernig gítarlínu ég vildi og hann kom bara með nákvæmlega það sem ég vildi í fyrstu tilraun,“ bætir hún við.
Elín hefur verið viðloðin tónlist lengi en hún er meðal annars í hljómsveitinni Náttsól. Hún tók líka þátt í Söngvakeppninni árið 2015 en hefur tekið því rólega síðan þá. Hún segir þó að meira sé á leiðinni enda eigi hún lög á lager. „Það er mikið til og eiginlega allt mjög gott,“ bætir Reynir við.