Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Pantaði flugmiðann klukkutíma fyrir flóttann

18.04.2018 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Suðurnesjum - RÚV
Sindri Þór Stefánsson, sem strauk af Sogni og flaug til Svíþjóðar í gær, pantaði flugmiðann einni klukkustund áður en hann lagði á flótta. Hann kom með leigubíl á flugvöllinn en lögreglu hefur ekki tekist að hafa uppi á bílstjóranum. Eftirlitsmyndavélar á Keflavíkurflugvelli sýna að Sindri var einn á ferð. Slóðin kólnar með tímanum, segir yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum.

Sindri Þór flaug í gærmorgun til Arlanda-flugvallar í Stokkhólmi eftir að hafa flúið fangelsið á Sogni klukkan eitt um nóttina. Þar hafði hann verið í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að innbrotum í gagnaver þar sem 600 tölvum var stolið. 

Lögreglan hér á landi hefur miðlað upplýsingum til fleiri Evrópulanda en Svíþjóðar um Sindra. „Sænsk lögregluyfirvöld og lögregluembætti í öðrum löndum hafa fengið upplýsingar um strokufangann Sindra Þór Stefánsson,“ segir Malin Näfver, upplýsingafulltrúi hjá sænsku lögreglunni, í samtali við fréttastofu. Hún sagðist ekki getað tjáð sig neitt frekar um málið. 

Á myndum úr öryggismyndavélum á Keflavíkurflugvelli sést að Sindri er einn á ferð. Hann er með svarta derhúfu, klæddur í dökkan jakka, bláar gallabuxur og íþróttaskó. Þá sést á myndunum að hann er með handfarangur og spjaldtölvu með sér þegar hann fer um borð í flugvélina.

Sindri Þór pantaði flugið klukkutíma áður en hann strauk úr fangelsinu. Pöntunin var gerð í nafni annars manns en Sindri greiddi fyrir flugmiðann með eigin korti. Hann kom svo með leigubíl þremur til fjórum tímum fyrir brottförina til Svíþjóðar.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV

„Okkur hefur ekki tekist að finna þennan leigubíl eða leigubílstjóra,“ segir Gunnar Schram, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum.  Lögreglan hafi áhuga á að ná tali af honum en leigubílinn sé silfurlitaður Skoda Station. Gunnar vildi ekki upplýsa hver maðurinn væri sem flugmiðinn var stílaður á. Það ætti eftir að ræða við hann. 

Lögreglan hefur í dag yfirheyrt fjóra vegna málsins, en þar af hafa tveir réttarstöðu sakbornings.

Að sögn Gunnars hefur lítið komið út úr samstarfi við sænsku lögregluna í málinu og í raun sé lögreglan litlu nær hvar Sindri sé niðurkominn.  Slóðin kólni með tímanum.  Hann er engu að síður bjartsýnn. „Við erum að þétta netið og erum býsna vongóðir um að það finnist lausn á þessu máli.“ Hann segir að lögreglan hafi fengið einhverjar ábendingar en vill ekki tjá sig neitt frekar um það. „Staðan er ekki vonlaus en rannsóknin er á býsna viðkvæmu stigi.“

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Suðurnesjum - RÚV