Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Panamaþátturinn tilnefndur til Emmy

07.08.2017 - 14:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Fréttaskýringaþáttur SVT, Uppdrag granskning, hefur verið tilnefndur til Emmy-verðlauna fyrir umfjöllun sína um Panamaskjölin. Í þættinum var frægt viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, þar sem hann var spurður hvort hann gæti eitthvað sagt um aflandsfélagið Wintris.

Í frétt SVT kemur fram að Uppdrag granskning hafi sýnt fram á hvernig embættismenn og glæpamenn en líka venjulegir auðjöfrar földu fjármagn sitt fyrir almenningi. Viðtal við Sigmund Davíð, þáverandi forsætisráðherra, hafi verið einn af hornsteinum umfjöllunar upp úr Panamaskjölunum, segir í frétt SVT.

Mynd: RÚV / Kastljós

„Ég held að þetta sé með því besta sem við Sven [Bergman] höfum gert. Öll vinnan og samstarfið við Jóhannes Kr. Kristjánsson þegar forsætisráðherrann var afhjúpaður, “ segir Joachim Dyfvermark.  Bergman tekur undir þetta - Jóhannes Kr. og ICIJ, samtök rannsóknarblaðamanna, eigi sinn þátt í því hvernig til tókst.

Sigmundur Davíð hefur ítrekað gagnrýnt hvernig staðið var að viðtalinu og sagði síðast í umræðuþætti fyrir kosningarnar í haust að hann gæti ekki beðist afsökunar á að hafa orðið „fyrir einhverju, sem ekki er hægt að kalla annað en ótrúlega árás, sem síðar hefur sýnt sig og verið sannað að var tilefnislaus og gróf.“

Sigmundur hafði áður sagt á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins að hann hefði verið plataður í viðtal. „Það var einfaldlega búið að skrifa handritið allt fyrirfram, æfa leikritið og þannig skyldi það standa því þetta snerist aldrei um að finna sannleikann. Þetta snerist um að koma höggi á Framsóknarflokkinn í gegnum mig. “

Mynd:  / 

Forsvarsmenn Uppdrag graskning hafa varið aðferðir sínar. Nils Hanson, ritstjóri þáttarins, sagði að nauðsynlegt hefði verið að fá Sigmund í viðtal á fölskum forsendum til að afhjúpa hræsni hans.  Þetta hafi verið eina raunhæfa leiðin til að fá sannleikann fram. „Viðbrögð hans við spurningum okkar staðfestu greinilega að hann hafði haldið þessum upplýsingum leyndum.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV