Panamaskjölin gjörbreyttu möguleikum skattsins

19.04.2017 - 14:22
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri
 Mynd: RÚV
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að viðhorf stjórnvalda á aflandssvæðum standi ekki lengur í vegi fyrir því að íslensk skattayfirvöld fái mikilvægar upplýsingar frá löndum sem áður voru treg til að veita þær. Viðhorf hafi gjörbreyst eftir að gögnum frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca var lekið til fjölmiðla og fjallað um efni þeirra opinberlega.

Skúli segir að þegar Panamaskjölin voru gerð opinber hafi allt viðhorf hjá þeim löndum sem erfiðast hafi verið að eiga við breyst mjög mikið. „Og núna er miklu auðveldara að fá upplýsingar, þannig að það stendur raunverulega ekki í vegi lengur að fá þær upplýsingar sem skipta máli fyrir skattayfirvöld.“

Skúli Eggert segir svæði á borð við Lúxemborg og Bresku-Jómfrúaeyjar skipta mestu máli fyrir íslensk skattayfirvöld.

Ríkisskattstjóri hefur farið hörðum orðum um aflandsvæðingu íslensks viðskiptalífs. Í leiðara í Tíund, fréttablaði ríkisskattstjóra í maí í fyrra, nokkrum vikum eftir að Panamaskjölin voru opinberuð, fjölluðu Skúli Eggert og Ingvar J. Rögnvaldsson vararíkisskattstjóri um aflandsfélög:

„Vindar sem nú blása um stærstan hluta hins vestræna heims gegn skattaskjólum eru hvassari en áður. Það er ástæða til þess að nýta þennan byr og skera upp herör gegn því að notkun félaga af þessu tagi verði látin viðgangast. Sóknarfærin eru nú óvenju sterk gegn þessu athæfi sem varla er unnt að kalla annað en ósóma.“

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi