Panamaskjalaþátturinn verðlaunaður í Svíþjóð

09.04.2017 - 02:24
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - Rúv
Sænski fréttaskýringaþátturinn Uppdrag Granskning hlaut í kvöld Gullspaðann, mikilvægustu verðlaun samtaka sænskra rannsóknarblaðamanna, fyrir þáttinn um Panamaskjölin. Sven Bergman, sem byrjaði hið örlagaríka viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson um tengsl hans við aflandsfélagið Wintris og fleiri mál, tók við verðlaununum.

Í þakkarræðunni sagðist Bergman bæði glaður og stoltur yfir því, að hafa fengið að vera þátttakandi í því mikla afreki, sem fjölmenn og alþjóðleg samvinnan um úrvinnslu Panamaskjalanna var. Það hafi fært honum heim sanninn um mikilvægi þess að rannsóknarblaðamenn ynnu saman, óháð landamærum og hagsmunum einstakra miðla, sérstaklega í rannsóknum á málum sem engin landamæri virða.

Þeir Sven Bergman, Joachim Dyfvermark, Jóhannes Kr. Kristjánsson, Aðalsteinn Kjartansson og aðrir sem unnu að þætti Uppdrag Granskning um Panamaskjölin, nutu þar einnig afraksturs vinnu fjölmargra meðlima í alþjóðasamtökum rannsóknarblaðamanna, ICIJ og kollega sinna á fjölda annarra fjölmiðla. Þeirra á meðal voru fréttamenn breska fréttaskýringaþáttarins Panorama á BBC og blaðamenn Guardian, sem í fyrra deildu aðalverðlaunum breskra rannsóknarblaðamanna fyrir sína umfjöllun um Panamaskjölin. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi