Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Pabbi og afi grófu upp Agnesi og Friðrik

Mynd: Facebook Magnús Ólafsson / Facebook Magnús Ólafsson

Pabbi og afi grófu upp Agnesi og Friðrik

05.04.2019 - 09:48

Höfundar

Skáldsagan Náðarstund eftir Hönnuh Kent greinir frá örlögum Agnesar Magnúsdóttur og Friðriks Sigurðssonar sem voru síðustu sakborningar sem teknir voru af lífi á Íslandi. Á dögunum var leikið í Víðsjá brot úr viðtali sem tekið var við höfundinn þegar bókin kom út, en Magnús Ólafsson, sem oftast er kenndur við Sveinsstaði, heyrði viðtalið og vildi bæta við öðru versi í þessa sögu, nefnilega frásögn af því þegar faðir hans og afi grófu upp bein Agnesar og Friðriks.

Skáldsaga Hönnuh Kent kom út árið 2014 í þýðingu Jóns St. Kristjánssonar, en sögunni af Agnesi, Friðrik og þeim sem þau myrtu, Natani Ketilssyni bónda á Illugastöðum á Vatnsnesi og Pétri Jónssyni frá Geitaskarði, kynntist Hannah fyrst þegar hún var skiptinemi í Skagafirði þegar hún var 17 ára.

Agnes og Friðrik voru dæmd til dauða fyrir að myrða Natan og Pétur og hálshöggvin þann 12. janúar 1830. Hér má heyra brot úr viðtali Magnúsar Arnar Sigurðssonar við höfundinn í Víðsjá árið 2014. 

Mynd: Twitter / Forlagið / Twitter / Forlagið

Eftir að hafa heyrt þetta viðtalsbrot í Víðsjá á dögunum hafði Magnús Ólafsson á Blöndósi samband. Magnús er kenndur við Sveinsstaði, en það var í landi bæjarins sem Agnes og Friðrik voru dysjuð.

Agnes hafði samband gegnum miðil 

Í júní 1934, 104 árum eftir aftökuna, kom maður að Sveinsstöðum í leit að afa Magnúsar, Magnúsi gamla, eins og hann var kallaður. Gesturinn bar upp þá ósk við Magnús að hann aðstoðaði við að finna gröf þeirra Agnesar og Friðriks en þau höfðu verið dysjuð utan garðs eftir atburðina. 

„Afi hafði ekki hugmynd um hvar beinin voru grafin við Þrístapana,“ segir Magnús á línunni að norðan. „Þá segir aðkomumaðurinn, Guðmundur: „En mun það hjálpa til við leitina ef ég segi að þetta sé í hásumar-sólsetur-átt frá höggstokknum séð?“ Það reyndist svo vera en þessi skilaboð höfðu borist með þrálátri beiðni frá Agnesi í gegnum ósjálfráða skrift miðils.“

Magnús segir að afa sínum hafi þótt þetta sérstakt en sagði jafnframt að höfuðkúpur þeirra Agnesar og Friðriks hvíldu nærri beinunum, þvert á það sem áður var haldið, því sagan sagði að þær höfðu verið færðar í vígða mold eftir aftökuna. 

Náðarstund eftir Hönnuh Kent er bók vikunnar á Rás 1 en í þættinum á sunnudagsmorgun fjallar Auður Aðalsteinsdóttir um bókina ásamt Ingibjörgu Ágústsdóttur, dósent í breskum bókmenntum, og Sólrúnu Öglu Bjargardóttur, sem nýlega skrifaði BA-ritgerð um skáldverk sem fjalla um morðin á Illugastöðum.

Frásögn Magnúsar af uppgreftinum má heyra í heild hér að ofan, en hann hefur undanfarin ár farið með ferðafólk í hestaferðir um söguslóðir atburðanna. Víðsjá þakkar Magnúsi fyrir símtalið og frásögnina. Tónlistin í innslaginu er úr smiðju Miroslav Vitous. 

Leiðrétting: Bókin Enginn má undan líta sem fjallaði um atburðina á Illugastöðum var eftir Guðlaug Guðmundsson frá Sunnuhlíð í Vatnsdal, en rangt var farið með nafn hans í umfjölluninni. 

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook Magnús Ólafsson
Magnús Ólafsson er mikill hestamaður og fer með ferðafólk um söguslóðir Náðarstundar.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Hollywoodstjarna á sauðskinnsskóm

Kvikmyndir

Tökulið Burial Rites skoðar Vatnsnesið

Kvikmyndir

Jennifer Lawrence leikur Agnesi

Innlent

Réttað yfir Agnesi og Friðriki á nýjan leik