Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Oxfam gæti misst fjármögnun vegna vændiskaupa

11.02.2018 - 17:37
Mynd með færslu
Fellibylurinn Matthías olli mikilli eyðileggingu og manntjóni á Haítí 2016. Mynd: EPA - EFE
Bresku hjálparsamtökin Oxfam gætu misst opinbera fjárveitingu sína eftir að upp komst að starfsmenn samtakanna keyptu vændi á Haítí árið 2011 þegar samtökin störfuðu þar ári eftir jarðskjálftann mikla.

Fjórum þeirra var sagt upp en þremur leyft að segja upp. Einn af þeim var Roland Van Hauwermeiren, svæðisstjóri Oxfam fyrir Haítí. Hann hélt síðar til starfa annars staðar. Talsmenn Oxfam segja að hann hafi ekki fengið meðmæli frá samtökunum. Einnig hafi verið gefin út yfirlýsing á sínum tíma þar sem greint hefði verið frá „alvarlegum misferlum“. BBC greinir frá. 

The Sunday Times greinir frá því að nýjar ásakanir hafi komið fram þar sem yfir 120 starfsmenn breskra hjálparsamtaka eru sakaðir um kynferðislegt ofbeldi á síðasta ári.  

Penny Mordaunt,   ráðherra þróunarmála, sagði í viðtali við BBC í dag að Oxfam hefði brugðist siðferðislega og krefst þess að samtökin framvísi öllum gögnum sínum um málið. Samtökin hefðu aðeins talað um misferli þegar greint var frá uppsögnunum á sínum tíma en ekki í hverju þau hefðu falist. Hún segist íhuga að svipta Oxfam opinberum fjárveitingum, sem voru nærri 32 milljónir punda í fyrra. Mordaunt hyggst eiga fund með hjálparsamtökunum á morgun.

Oxfam hefur tilkynnt að teknar verði í gagnið nýjar aðgerðir til að koma í veg fyrir kynferðislegt ofbeldi, og aðgerðir til að bregðast við því innan samtakanna.  

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV