Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Óx með tónmenntastofu Austurbæjarskóla

Mynd: Tónahlaup / RÚV

Óx með tónmenntastofu Austurbæjarskóla

29.09.2015 - 16:26

Höfundar

Logi Pedro Stefánsson, bassaleikari Retro Stefson og sjálfstæður tónlistarmaður, segir tónlist sveitarinnar alltaf hafa einkennst af fjölþjóðlegum stefnum og straumum. Hljómsveitin varð til í Austurbæjarskóla og er stundum kynnt sem stórsveit skólans á tónleikum.

Logi sækir skólann heim í sjónvarpsþættinum Tónahlaupi, sem verður á dagskrá RÚV í kvöld.

„Allar hljómsveitaræfingarnar okkar voru fyrst í Austurbæjarskóla, annaðhvort hér í tónlistarstofunni, eða í smíðastofunni eða uppi á lofti. Þannig að við vorum alltaf að koma inn í stofuna hérna og ræna mögnurum,“ segir Logi. 

Hljómsveitin býr bókstaflega enn að því sem tónmenntastofa skólans veitti henni. „Fyrsta alvöru hljómborðið sem hljómsveitin notaði er héðan úr stofunni. Við fengum að taka með okkur á túra og notum ennþá.“

Fjölmenningarlegur skóli

„Ég kom hérna marga morgna, frá fyrsta til sjöunda bekks, og ég man þegar að stofan fór að taka á sig fjölþjóðlega mynd,“ segir Logi. „Maður byrjaði að sjá öll hljóðfærin frá Afríku þegar tónlistarsafnið byrjaði. Í minningunni finnst mér eins og ég hafi vaxið með stofunni. Maður ólst upp með hljóðfærunum og með hverju árinu kom eitthvað nýtt. Ég átti margar skemmtilegar stundir í henni.“

Logi segir að Austurbæjarskóli sé fjölmenningarlegur og það endurspeglast í tónmenntakennslunni og tónlist Retro Stefson.

„Á fyrstu plötunum unnum við mikið með bossa nova ... öll sú músík sem við spiluðum kom úr exótískum áttum; við lékum okkur með franska poppmúsík, bossa nova lög, afríska takta. Við höfum alltaf verið internasjónal — án þess að pæla í því — við tókum bara allt inn á okkur,“ segir Logi.

Tónahlaup verður á dagskrá RÚV kl. 20:05 í kvöld. Þar munu nemendur Austurbæjarskóla gera atlögu að tónsmíð Loga og útsetja upp á eigin spýtur.