Óvíst um viðbrögð við nefndaformennsku

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir - RÚV
Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa ekki tekið afstöðu til þess hvort þeir taki við formennsku í þeim þingnefndum Alþingis sem forystumenn verðandi stjórnarflokka hafa lagt til. Samkomulag hefur sjaldnast náðst um skiptingu nefndaformennsku eftir breytingar á þingskaparlögum.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, greindi frá því eftir að hún fékk stjórnarmyndunarumboð úr hendi forseta í dag, að verðandi stjórnarflokkar hefðu boðið verðandi stjórnarandstöðu formennsku í þremur nefndum. Það eru stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, velferðarnefnd og umhverfis- og samgöngunefnd.

Skipting formennsku í nefndum er í samræmi við breytingar sem gerðar voru á þingsköpum árið 2011 og áttu að leiða til að formennska í þingnefndum réðist af þingstyrk, en félli ekki öll í hlut stjórnarliða eins og verið hafði lengi.

Skoða af opnum hug

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sögðu í samtali við fréttastofu að stjórnarandstaðan ætti eftir að ræða þetta. Þetta yrði rætt og skoðað af opnum hug og síðan ákveðið hvort fallist verði á tillögu stjórnarflokkanna eða þeim gerð gagntillaga um hvaða nefndir stjórnarandstaðan fái í sinn hlut. Bæði bentu á að það væri ekki nýtt að stjórnarandstöðunni stæði formennska í nefndum til boða heldur í samræmi við þingsköp.

Ekki náðist í Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, en hann sagði á Facebook-síðu sinni að það væri skondið að stjórnin tilkynnti hvaða nefndaformennska ætti að standa stjórnarandstöðu til boða, líkt og um gjafir væri að ræða.

Sjaldgæft að samkomulag náist

Frá breytingum á þingsköpum 2011 hefur aðeins einu sinni gerst að samkomulag hafi náðst um það í hvaða nefndum stjórnarandstaðan fengi formennsku. Það var kjörtímabilið 2013 til 2016. Í fyrsta skipti sem reyndi á þetta, árið 2011, náðist ekki samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu og því ákváðu Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn að taka ekki að sér formennsku í nefndum. Fyrir tæpu ári síðan strandaði samkomulag um formennsku í þingnefndum á því að Vinstri-grænum og Pírötum hugnaðist ekki að Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn höfðu rætt um að stjórnarandstaðan fengi formennsku í þremur nefndum gegn því að Lilja Alfreðsdóttir yrði formaður efnahags- og viðskiptanefndar. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi