Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Óvíst um stuðning Jóns við stjórn

30.12.2011 - 21:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Bjarnason, fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, svaraði því ekki í kvöld hvort hann myndi greiða atkvæði gegn vantrauststillögu á ríkisstjórnina, yrði hún lögð fram á Alþingi.

„Ég er ósáttur við þessa niðurstöðu og þau vinnubrögð sem þarna eru að baki, bæði af hálfu míns formanns og ekki hvað síst formanns og forystu Samfylkingarinnar sem þarna birtist. En mér er alveg ljóst að þarna er á ferðinni það að ég hef verið, eins og allir vita, afdráttarlaus andstæðingur inngöngu í Evrópusambandið og haldið því fram þrátt fyrir að sú vinna sé í gangi.

Jón sagðist hafa áhyggjur af stöðu Evrópumála og sagði þetta gefa fólki sem styddi hugsjónir flokksins frekari ástæðu til að berjast fyrir stefnumálum sínum. Þegar Jón var spurður í fjórða sinni hvort hann styddi ríkisstjórnina svaraði hann: „Sko, til allra góðra verka styð ég.“ Aðspurður hvort þetta ætti ekki við um alla þingmenn, líka þá í stjórnarandstöðu svaraði Jón: „Til þess erum við kosnir.“

„Hún hefur ekki verið borin upp nein vantrauststillaga,“ sagði Jón aðspurður hvort hann myndi greiða atkvæði gegn vantrauststillögu. „Mér finnst þetta í fyrsta lagi mjög ómálefnaleg spurning því þetta snýst um málefni.“