Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óvíst um framhald rannsókna á Drekasvæðinu

22.01.2018 - 19:52
Mynd með færslu
 Mynd: - - Orkustofnun
Kínverska ríkisolíufélagið CNOOC og norska ríkisolíufélagið Petoro hafa hætt rannsóknum á Drekasvæðinu. Það ræðst á næstu vikum hvort íslenska félagið Eykon fær að halda verkefninu áfram.

 

Fimm ár eru síðan fyrstu sérleyfin voru veitt til rannsókna og vinnslu olíu á Drekasvæðinu. Alls voru veitt þrjú leyfi. Fyrsta leyfinu var skilað í lok árs 2014 og því næsta í byrjun síðasta árs, þar sem ekki þótti ástæða til að halda áfram rannsóknum. 

Þriðja og síðasta sérleyfið var til tólf ára. Svæðið sem var úthlutað með leyfinu var það stærsta af þremur á Drekasvæðinu, alls 6.300 ferkílómetrar, og voru jarðfræðiaðstæður taldar ólíkar hinum tveimur svæðunum.

Fyrsta áfanga er nú lokið og þurftu leyfishafar að upplýsa stjórnvöld, eigi síðar en í dag, hvort halda ætti áfram leitinni samkvæmt næsta áfanga eða skila leyfinu inn. 

Telja íslenska félagið ekki geta staðið undir verkefninu

Kínverjar voru með 60% hlut sérleyfisins, Petoro með 25% og Eykon með 15%. Í ljósi fyrirliggjandi gagna um jarðfræði svæðisins og annarra þátta, svo sem rannsóknarkostnaðar, hafa erlendu fyrirtækin ákveðið að gefa leyfið eftir. Þar með falla þeir frá réttindum sínum um sérleyfi til olíuvinnslu á Drekasvæðinu og einnig skyldum sínum um frekari olíuleit og kolvetnisrannsóknir.   

„Íslenska félagið Eykon er þá eitt eftir og þá vaknar spurningin um það hvort þeir hafi burði til þess að halda áfram einir með leyfið, og það er mat Orkustofnunar að svo sé ekki,“ segir Skúli Thoroddsen, lögfræðingur Orkustofnunar.

Ekki er þó öll nótt úti enn fyrir Eykon. „Þeir hafa óskað eftir því við Orkustofnun að fá að ræða þann möguleika að fá einhverja aðra aðila að leyfisveitingunum og það er lögfræðileg spurning,“ segir Skúli. Það sé aftur á móti mat Orkustofnunar að Eykon hafi hvorki fjárhagslega né tæknilega burði til þess að standa eitt sem rekstraraðili leyfisins. Eykon hafi verið greint frá þessu sjónarmiði Orkustofnunar og gefinn tími til 15. febrúar til svara. „Ég ætla ekki að kveða upp neinn úrskurð hér og nú um það, það fer eftir þeirra sjónarmiðum, hvernig ákvörðun Orskustofnunar lítur út eftir 15. febrúar.“