Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óvíst hvort staða bæjarstjóra verði auglýst

Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Meirihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar hefur ekki ákveðið hvort ráðið verði í starf bæjarstjóra án auglýsingar. Vinna við málefnasamning er á lokametrunum og verður hann kynntur flokkunum í þessari viku. Formaður bæjarráðs Akureyrar segir áherslu lagða á málefni barna, unglinga og aldraðra.

Verður kynntur flokkunum síðar í vikunni

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokks og formaður bæjarráðs, segir samninginn verða kynntan flokkunum síðar í vikunni og hann verði tilbúinn fyrir næsta bæjarstjórnarfund, 12. júní. 

„Við höfum lagt áherslu á í okkar stefnuskrám að huga að börnum, unglingum og öldruðum. Og það er það sem við leggjum áherslu á í okkar málefnasamningi,” segir hann. 

Ekki búið að ákveða ráðningarferlið

Skipan embætta innan bæjarstjórnarinnar verður tilkynnt á sama tíma og málefnasamningurinn verður kynntur. Guðmundur Baldvin vill ekki gefa upp hvort hann verður áfram formaður bæjarráðs. Eiríkur Björn Björgvinsson, fráfarandi bæjarstjóri, var ráðinn 2010 úr hópi 53 umsækjenda. Varðandi ráðningu nýs bæjarstjóra, segir Guðmundur Baldvin enn ekki liggja fyrir hvort starfið verði auglýst.

„Við erum ekki endanlega búin að ákveða það,” segir hann. „En það verður ljóst bráðlega og er eitt af því sem verið er að vinna í þessa dagana.”