Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Óvíst að nýir sjóðir gagnist fyrir sumarið

01.03.2016 - 17:47
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Óvíst er að tveir nýir sjóðir, Áfangsstaðasjóður og Markaðsþróunarsjóður, sem stjórnvöld hafa boðað komi að gagni við að markaðssetja beint millilandaflug sem hefst til Egilsstaða í sumar. Margir erlendir ferðamenn eru nú þegar farnir að skipuleggja sumarfrí sín og framkvæmdastjóri Austurbrúar undrast hve langan tíma tekur að koma sjóðunum á laggirnar. Eftirlitsstofnun EFTA þarf að samþykkja þann hluta af starfsemi sjóðanna sem felur í sér ríkisstyrki.

Breska ferðaskrifstofan Discover the World ætlar að fljúga tvisvar í viku milli Egilsstaða og Lundúna í sumar. Tilkynnt var um flugið í október og skömmu síðar samþykkti ríkisstjórnin tillögu forsætisráðherra að stofna Markaðsþróunarsjóð og Áfangastaðasjóð til að koma á reglulegu millilandaflugi um aðra flugvelli en Keflavík. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra var falið að hefja undirbúning að stofnun sjóðanna.

Eiga að starfa í 3 ár

Talsvert hafði þá verið unnið í málinu. Verkefnið byggði á skýrslu starfshóps og tillögurnar virðast hafa verið nokkuð mótaðar ef marka má frétt á vef Forsætisráðuneytisins frá 12. nóvember. Þar sagði að framlag ríkisins til sjóðanna myndi skila sér í formi skatttekna sem yrðu 300-400 milljónir króna miðað við tvö flug í viku allt árið. Sjóðirnir ættu að starfa í þrjú ár og að þeim tíma liðnum myndi ríkið áfram njóta þessara auknu skatttekna.

Æskilegt að sjóðirnir nýtist fyrir sumarið

Fyrsta vélin á vegum Discover the World lendir á Egilsstaðaflugvelli 28. maí eða eftir tæpa þrjá mánuði. Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, sem hefur unnið að því að koma á beinu millilandaflugi um Egilsstaðaflugvöll segir að æskilegt hefði verið að sjóðirnir yrðu komnir í gagnið fyrr þannig að þeir hefðu nýst í markaðssetningu fyrir sumarið.

„Niðurstöður nefndarinnar lágu fyrir í haust. Síðan eru liðnir nokkrir mánuðir og ekki ennþá búið að kynna mögulegt umsóknarferli eða annað um þessa sjóði. Það er mjög óheppilegt að þetta sé svona lengi í gegnum stjórnsýsluna. Þetta er ekki gott fyrir þá áfangastaði sem eru að reyna að koma sér á kortið; hvort sem það eru Egilsstaðir eða Akureyri,“ segir Jóna Árný.

Áhugi ekki sjálfgefinn

Enn á eftir að koma í ljós hvort Discover the World heldur beinu flugi áfram eftir sumarið en það kann að ráðast af því hvernig gengur í sumar. Ferðaskrifstofur og flugfélög hafa ekki beðið í röðum eftir því að fljúga til Akureyrar og Egilsstaða og því er talið mikilvægt að fá sjóðina í gagnið til að vekja áhuga á flugvöllunum og til halda í það sem þegar hefur náðst. „Það er stórmál að koma svona á og það hafa önnur lönd reynt,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar.

Styttist í að útfærslan liggi fyrir 

Samkvæmt upplýsingum frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er enn unnið að útfærslu á tillögunum en vonast er til að þær verði tilbúnar innan skamms. Hluti þeirra feli í sér ríkisstyrki sem þarfnist samþykkis frá Eftirlitsstofnun EFTA.