Óvíst að aukin loðnuleit gefi meira aflamark

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Bæði rannsóknarskip Hafrannsóknarstofnunar, Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson, héldu til loðnumælinga í gær. Árni hélt vestur fyrir land, en Bjarni er á austurleið. Forstjóri Hafrannsóknarstofnunar segir hugsanlega hægt að rannsaka stærra svæði en áður.

Rannsóknarskipin voru síðast við loðnumælingar frá 3.- 21. janúar ásamt þremur veiðiskipum. Veður var óhagstætt talsverðan hluta þess tíma og truflaði það mælingar nokkuð. Síðustu vikuna voru aðstæður þó hagstæðar. Eftir mælingarnar mat Hafrannsóknarstofnun það svo að veiðistofn loðnu væri um 675.000 tonn. Það þýðir að 100.000 tonn koma í hlut íslenskra skipa.

Útgerðarmenn vilja ítarlegri rannsóknir

Ákvörðun um að halda mælingum áfram var meðal annars tekin eftir fundi með útgerðarmönnum sem lýst hafa miklum vonbrigðum með úthlutaðan kvóta. Þeir kalla eftir ítarlegri rannsóknum í þeirri von að frekari mælingar á stofnstærð loðnunnar sýni að tilefni sé til að auka kvótann.

Ekkert sem segir að aflamarkið aukist

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, segir stefnt að því að þessi leiðangur taki um hálfan mánuð. Meiningin sé að fara aftur yfir og fínkemba svæði sem búið var að rannsaka. Hugsanlega verði farið yfir stærra svæði. Fleiri yfirferðir auki þekkingu á ástandi loðnustofnsins og geti gefið nákvæmara mat. Það sé samt ekkert sem segi fyrir fram að það gefi meira aflamark.

Bæði skipin nauðsynleg

Jóhann segir Hafrannsóknarstofnun hafa átt eftir einhverja daga af áætluðu úthaldi rannsóknarskipanna og hafi verið ákveðið að nýta þá í þessar rannsóknir. Þá leggi útgerðin líka eitthvað af mörkum. Nauðsynlegt hafi verið að fara þetta á báðum rannsóknarskipunum og ekki sé útilokað loðnuveiðiskip taki þátt í þessum leiðangri.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi