Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Óvissuþættir gætu tvöfaldað Icesave

28.02.2011 - 18:50
Mynd með færslu
 Mynd:
Styrking sterlingspundsins getur haft veruleg áhrif á þá fjárhæð sem íslenska ríkið þarf að greiða til innistæðueigenda Breta og Hollendinga samkvæmt nýjustu Icesave- samningunum. Óvissuþættir í samningnum gætu tvöfaldað skuldbindinguna - eða lækkað hana verulega.

Það eru einkum þrír þættir sem hafa áhrif á umfang skuldbindinga íslenskra stjórnvalda gagnvart breskum og hollenskum innstæðueigendum í þeim Icesave-samningnum sem þjóðin greiðir atkvæði um 9. apríl næstkomandi. Í fyrsta lagi skiptir máli hversu mikið endurheimtist af eigum Landsbankans - hvenær greiðslur úr búi Landsbankans berast og í þriðja lagi hreyfingar á gengi íslensku krónunnar gagnvart pundi og evru.

Áætlaður kostnaður vegna Icesave er metinn á 47 milljarða króna samkvæmt frumvarpi til laga um samninginn. Í frumvarpinu eru tekin dæmi um hvaða áhrif þessir þrír áhættuþættir geti haft á skuldbindinguna. Verði greiðslum úr búinu flýtt t.d. um hálft ár og verði endurheimtur betri vegna sölu skuldabréfa 2014, þá lækkar kostnaður ríkisins nokkuð frá áætlun.

Á hinn bóginn gætu breytingar orðið í andstæða átt ef heimtur verða lakari. Innheimtist aðeins 80 prósent af áætlun og útborgunum seinkar um tvö ár nemur heildargreiðslan 113 milljörðum króna þar sem bæði vextir og eftirstöðvar höfuðstóls hækka.

Eignir bús Landsbankans eru í ýmsum myntum en gengisáhætta stafar aðallega af gengi sterlingspundsins.

Nemi árleg veiking pundsins til 2016 þremur prósentum umfram þá árlegu breytingu sem gert er ráð fyrir í reikniforsendum Seðlabankans lækkar skuldbindingin í 23 milljarða króna. Árleg styrking pundsins um sömu prósentutölu á tímabilinu myndi hækka skuldbindinguna í 77 milljarða króna.

Von er á nýju mati á eignum bús Landsbankans frá skilanefnd hans í vikunni. Þegar það liggur fyrir verður nánar hægt að meta upphæðirnar í samningnum það er að segja hvort áætluð skuldbinding lækki eða hækki.