Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Óvissa um Hús íslenskra fræða

24.07.2013 - 20:30
Mynd með færslu
 Mynd:
Framkvæmdir við Hús íslenskra fræða liggja niðri og óvissa ríkir um framhald þeirra. Verktaki, sem átti lægsta boð í verkið, segist ætla í skaðabótamál verði það blásið af.

Grafið hefur verið fyrir Húsi íslenskra fræða sunnan við Þjóðarbókhlöðuna. Ekki er ljóst hvort af frekari framkvæmdum verður eða hvort mokað verður ofan í holuna aftur.

Allt tilbúið
Fyrsta skóflustungan að húsinu var tekin í mars á þessu ári en framkvæmdin var hluti af fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar. Byggingin á meðal annars að hýsa starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Teikningar eru tilbúnar og byggingarleyfi hefur verið veitt.
Fram hefur komið að Hús íslenskra fræða er á meðal þess sem formanni fjárlaganefndar Alþingis finnst koma til greina að skera niður í sparnaðarskyni.

Krefjast mögulega skaðabóta
Ráðgert var að verktaki gæti hafist handa í júní. Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri JÁVERKS, sem lægst bauð í verkið, segir óvissuna óþægilega. „Jú jú, þetta er auðvitað óþægileg staða. Við auðvitað vorum lægstbjóðendur í þetta verk og reiknuðum með því að vera byrjaðir.“ Tilboðinu hafi í raun ekki verið tekið ennþá. Verði framkvæmdin blásin af segir Gylfi að fyrirtækið muni bregðast hart við. „Ja, það er náttúrlega skýrt að við munum auðvitað halda uppi einhverjum skaðabótakröfum ef svo verður. Það er skýrt dómafordæmi fyrir algerlega sambærilegu máli í sambandi við Héðinsfjarðargöng.“ 

Örlög ráðast um miðjan ágúst
Gylfi á þó ekki von á öðru en að byggingakranarnir verði byrjaðir að snúast fljótlega. 
Samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu ráðast örlög hússins um miðjan ágúst.