Óvissa um gengislánadóma

05.06.2013 - 21:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Saga gengislánadóma Hæstaréttar hófst fyrir réttum þremur árum og ófyrirséð er hvenær henni lýkur. Fjármögnunarfyrirtæki, einstaklingar og fyrirtæki hafa á víxl höfðað mál í leit að fordæmum um hvernig meðhöndla skuli gengislán.

Í júní 2010 féllu fyrstu dómarnir. Deilt var um það hvort heimilt væri að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlenda gjaldmiðla. Málin snerust um bílasamninga hjá Lýsingu og SP fjármögnun. Niðurstaðan var að óheimilt væri að tengja greiðslur í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla en það hafði þá tíðkast um árabil. Í september sama ár féll svo hæstaréttardómur vegna bílasamnings Lýsingar sem tók af tvímæli um að miðað skyldi við vexti Seðlabanka Íslands frá upphafi. Fyrir vikið réðust fjármögnunarfyrirtækin í endurútreikning á samningum með svipaðri aðferð í samræmi við dóminn, veltureikningsaðferð sem skaut aftur upp kollinum í Hæstaréttardómi fyrir helgi. Í lok ársins 2010 voru sett lög, þess efnis að öll gengistryggð lán, óháð lánsformi, skyldu reiknast með Seðlabankavöxtum.

Lántakendur, sem höfðu kvittun í höndunum um fullnaðargreiðslu, vildu ekki sætta sig við endurútreikning sem myndi hækka greidda gjalddaga afturvirkt. Tveir fóru í mál við Frjálsa fjárfestingabankann og dómur féll í Hæstarétti í febrúar 2012.

Niðurstaðan var að þegar fullnaðarkvittun væri fyrir hendi ætti að reikna með Seðlabankavöxtum en ekki mætti krefjast greiðslna umfram þá fjárhæð sem tilgreind væri á kvittuninni. Þar með mátti, við ákveðin skilyrði, víkja frá þeirri meginreglu að borga skuli lán að fullu.

Borgarbyggð fór gegn Arion banka og dómur féll í Hæstarétti í október 2012. Farið var yfir hvernig meta ætti skilyrðin. Kynnt var til sögunnar útreikningsaðferð til að skera úr um hvort fullnaðarkvittun gilti eða hvort meginregla skyldi ráða. Með nýju útreikningsaðferðinni var niðurstaðan mjög ólík ef borin voru saman skammtímalán og lán til langs tíma.

Plastiðjan fór í mál við Landsbankann og lét reyna á skammtímasamning um bíl. Í dómi Hæstaréttar um málið í síðustu viku eru lagðar til aðrar aðferðir við uppgjör endurútreikninga. 

Ekki verður skilið við þetta mál án þess að nefna að Eftirlitsstofnun EFTA telur blátt bann við gengistryggðum lánum brjóta í bága við EES-reglurnar og hefur skilað íslenskum stjórnvöldum rökstuddu áliti þar um, sem ætlast er til að þau fylgi. Ef ekki þá getur ESA stefnt íslenska ríkinu fyrir að brjóta gegn ákvæði EES samningsins um frjálst flæði fjármagns.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi