Óvissa eftir stórbruna á Snæfellsnesi

11.12.2016 - 19:05
Óvissu fylgja tækifæri, segir oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps. Í stórbruna á Miðhrauni á Snæfellsnesi í nóvember brann vinnustaður um fimmtungs íbúa sveitarfélagsins.

Eldur kom upp í hausaþurrkun Félagsbúsins Miðhrauns á Snæfellsnesi aðfaranótt mánudagsins 21. nóvember. Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá rafmagnstöflu og þrátt fyrir fjölmennt slökkvilið brann hausaþurrkunin til kaldra kola. Slökkvilið komu á vettvang allt frá Ólafsvík til Keflavíkur.

„Að sjálfsögðu er þetta heilmikið áfall því þetta er náttúrlega stórbruni á landsvísu en hann fór ekki eins illa og hefði getað orðið.  Það náðist að bjarga heilmiklum verðmætum þótt mikið hefði farið,“ segir Eggert Kjartansson, oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps.

Í aðgerðum slökkviliðs tókst að bjarga nýbyggingu við hlið hausaþurrkunarinnar og koma í veg fyrir að eldur læsti sig í olíu- og ammoníakstanka.

Félagsbúið Miðhraun er stærsti vinnustaður Eyja- og Miklaholtshrepps. Íbúar sveitarfélagsins eru um 140 - en 40 til 50 tengjast félagsbúinu með beinum eða óbeinum hætti, þar af störfuðu um 30 manns við hausaþurrkunina. Þeim hefur nú verið sagt upp. Unnið er að því að finna þeim ný störf og enn er verið að meta tjón og ganga frá tryggingamálum. Eggert hefur ekki áhyggjur af sveitarfélaginu sjálfu - það standi vel fjárhagslega.

„Það er nú bara verið að vinna úr þessu og tekur bara tíma, menn verða bara að sýna því þolinmæði. Framundan er svolítil óvissa, en það fylgir tækifæri óvissu ég vil meina að það geti komið tækifæri út úr þessu.Við bara brettum upp ermarnar og hjálpumst að að vinna úr þessu,“ segir Eggert.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi