Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Óvirðing við neytendur

15.01.2012 - 19:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður Neytendasamtakanna segir þá forsvarsmenn matvælafyrirtækja sem hafa notað iðnaðarsalt í matvinnslu hafa sýnt neytendum sýna mikla óvirðingu. Nú liggur fyrir hvaða fyrirtæki keyptu saltið í fyrra.

Stærstu matvinnslufyrirtæki landsins keyptu iðnaðarsalt af Ölgerðinni í fyrra samkvæmt listum sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur birt.  Ljóst þykir að mörg þeirri hafi notað saltið til matvinnslu og að lengi hafi tíðkast að nota iðnaðarsalt til matvinnslu hér á landi. Á listunum má finna Sláturfélag Suðurlands, Mjólkursamsöluna, Kjarnafæði, Síld og fisk, Norðan fisk, Matfugl og fleiri og fleiri. Á listunum eru einnig fjölmargir veitingastaðir og bakarí. Á öðrum listanum eru yfir hundrað fyrirtæki.

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að sá sem noti iðnaðarsalt í matvæli brjóti lög.

Í áttundu grein laga um matvæli segir:  ,,Óheimilt er að markaðssetja matvæli sem ekki eru örugg, þ.e. heilsuspillandi eða óhæf til neyslu. Stjórnandi matvælafyrirtækis ber ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga..."

Brot gegn ákvæðum þessara laga varða sektum, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.

Og þó ekkert bendi til þess að saltið hafi skaðað heilsu manna er það metið óhæft til neyslu.

Forstjóri Ölgerðarinnar segist ekki hafa vitað að ekki mæti nota iðnaðarsalt til matvælavinnslu. Ekki er hægt að fullyrða hvort forsvarsmenn matvælafyrirtækjanna hafi sömu sögu að segja en Jóhannes dregur það í efa þar sem umbúðir saltsins gefi skýrt til kynna um hvernig vöru sé að ræða. Ljóst liggi fyrir að þessir aðilar hafi vitað hvað þeir voru með í höndunum og það sé mikil óvirðing gagnvart neytendum af hálfu þessara aðila að nota iðnaðarsalt í matvæli. Það sé forkastanlegt.