Óverðtryggðum íbúðalánum snarfjölgar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kári Gylfason
Heimilin kusu miklu frekar að fjármagna íbúðakaup með óverðtryggðu láni en verðtryggðu í október. Ný óverðtryggð íbúðalán jukust um meira en tvo og hálfan milljarð milli septembers og óktóbers. Á sama tíma snarminnkuðu þau verðtryggðu, samkvæmt hagtölum Seðlabankans. Óverðtryggð íbúðalán hafa ekki verið meiri á einum mánuði það sem af er ári. Hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði segir að meiri verðbólguvæntingar heimilanna kunni að skýra þessa þróun.

„Svo virðist sem að heimilin hafi í október kosið að fjármagna íbúðakaup sín með óverðtryggðum lánum í mun meiri mæli en í síðasta mánuði og það sem af er ári,“ segir Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði. Það skýrist að hluta vegna þess að verðbólguvæntingar hafi verið að þokast upp á við á þessu ári. „Þau vilja komast hjá því að taka verðtryggð lán þegar þau búast við meiri verðbólgu,“ útskýrir Ólafur. Þá hafi vextir á óverðtryggð lán hækkað lítið.

Auknar verðbólguvæntingar skýrist einna helst af aukinni umræðu um óvissu í efnahagslífinu og lægra gengi krónunnar. „Hins vegar er óvarlegt að draga ályktanir af þessum eina mánuði þótt þetta sé vissulega áhugaverð þróun,“ segir Ólafur.

Mynd með færslu
 Mynd:

Í grafinu hér fyrir ofan eru sýnd ný hrein lán sem veitt eru af fjármálafyrirtækjum hvern mánuð fyrir sig í milljónum króna. Fengið úr hagtölum Seðlabanka Íslands.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi