Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Óvenjumörg tilfelli af vöðvasulli í sauðfé

03.11.2016 - 15:21
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Í sláturtíðinni hafa eftirlitsdýralæknar Matvælastofnunar orðið varir við vöðvasull í sauðfé frá nokkrum bæjum. Greiningin hefur verið staðfest af sérfræðingum á Tilraunastöð HÍ að Keldum. Ástæðan gæti verið misbrestur á bandormahreinsun hunda.

Vöðvasullur er lirfustig bandormsins Taenia ovis, sem lifir í hundum og refum. Um er að ræða blöðrur sem finnast í vöðvum sýktra kinda. Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að vöðvasullur sé ekki hættulegur fólki, en hann veldur tjóni vegna skemmda á kjöti og hugsanlega óþægindum og vanlíðan fyrir sýkt fé. 

Vöðvasullur greindist fyrst hér á landi í lömbum árið 1983 og á árunum fram til 1990 sást töluvert af honum en síðan hafa aðeins fundist stök tilfelli. En þar sem nú hafa greinst fleiri tilfelli en vant er, vill Matvælastofnun vekja athygli á þessu. Ástæður aukinnar tíðni gætu verið að misbrestur hafi orðið á bandormahreinsun hunda eða að bandormurinn geti leynst í refum.

Annar og verri bandormur, sullveikibandormurinn (Echinococcus granulosus) hefur ekki greinst í sauðfé hér á landi síðan árið 1979, en ormahreinsun hunda vegna hans hefur verið lögboðin í áratugi. Hundaeigendum er enn skylt að láta ormahreinsa hunda sína árlega og vill Matvælastofnun brýna fyrir hundaeigendum að sinna þessari skyldu sinni. Þetta á við um alla hunda, hvort sem er í sveit eða þéttbýli. Ormahreinsun hunda þar sem búrekstur er, skal fara fram að lokinni aðalsláturtíð eða í síðasta lagi í desember ár hvert.

Matvælastofnun tekur fram að smitið viðhelst fyrir lífstíð í sýktu fé og því er mikilvægt að sjá til þess að hundar komist ekki í eða séu fóðraðir á hráu kjöti. Jafnframt vill Matvælastofnun beina þeim tilmælum til refaskyttna að leggja ekki út hræ af kindum fyrir refi.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV