Síðasta sólarhring hafa mælst um 70 skjálftar við Bárðarbungu og rúmlega tugur í ganginum norðanverðum. Tveir skjálftanna voru yfir fimm stigum. Sá fyrri var klukkan 11:16 í gær, og var af stærðinni 5,4 og sá síðari klukkan 03:14 í nótt, var 5,0 að stærð.
„Bárðarbunga sjálf er greinilega að haga sér mjög óeðlilega, það er mikið af stórum skjálftum, og hvað það þýðir, við erum kannski ekki alveg með það á hreinu hvort að það sé bein afleiðing af því sem er að gerast í Holuhrauni eða hvort þetta geti verið fyrirboði einhvers annars,“ segir Ármann. Hann segir sigið í Bárðarbungu það mesta frá því mælingar hófust.
Óvenjumikil gasmengun frá Holuhrauni
Ármann segir óvenjumikla gasmengun koma frá eldgosinu í Holuhrauni. „Það kemur óhemju mikið gas, og við höfum bara aldrei séð svona mikið gas koma upp úr hraungosi, ekki síðan væntanlega í Lakagosinu 1783, sem var miklu stærra gos,“ segir Ármann. Hægur vindur undanfarna daga hafi svo orðið til þess að mengunin liggur yfir landinu og veldur fólki óþægindum. Fylgjast þurfi vel með þessu.
Ekki útilokað að önnur eldfjöll gjósi
Jarðhræringar hafa mælst við Kötlu og Heklu, og Ármann segir það ekki útilokað að fari að gjósa á fleiri stöðum en í Holuhrauni. „Þessir atburðir í Bárðarbungu þeir hafa væntanlega engin áhrif á slíkt. Og við vitum að þó að það sé sjaldgæft, þá er það vel þekkt að það séu fleiri en eitt eldfjall að gjósa á sama tíma á Íslandi, þetta er náttúrulega eldfjallaeyja,“ segir Ármann.