Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Óvenjumikið af hnúðlaxi hér í sumar

17.08.2017 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: wikipedia.org
Mun meira hefur veiðst af hnúðlaxi í íslenskum ám í sumar en mörg undanfarin ár. Sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun telur að laxinn flækist hingað úr sterkum hrygningastofni í Barentshafi. Engar vísbendingar séu um að hann sé farinn að hrygna hér á landi, en það sé þó vel mögulegt.

Fyrst varð vart við hnúðlax hér á landi á árunum upp úr 1960. Þá stunduðu Rússar hafbeit með hnúðlax á Kólaskaga, en þegar því var hætt tók sá stofn að hrygna í ám í Rússlandi og Noregi.

Tilkynnt um hátt í 40 hnúðlaxa   

Hnúðlax hefur jafnan slæðst í ár hér á landi, en Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatnslífríkis hjá Hafrannsóknastofnun, segir óvenjumikið af honum hér í sumar. „Eins og er þá er það nú farið að slaga í 40 fiska. Það eru reyndar ekki öll kurl komin til grafar, veiðitíminn er ekki búinn, þannig að það gæti komið eitthvað meira. Eins gæti verið eitthvað skráð í veiðibækur. En þetta eru óvenjulega margir fiskar þetta árið. Þetta hefur verið frá nokkrum fiskum og kannski upp í 12 sem við höfum verið að frétta af og eitthvað hefur kannski verið til viðbótar,“ segir hann.

Hugsanlega sterkur árgangur úr Barentshafi

Þá hafi einnig frést af óvenjumiklum hnúðlaxi í ám í Noregi og á Bretlandseyjum í sumar. En menn viti ekki með vissu af hverju svo mikið er af honum núna. „Maður giskar á að það hafi verið góðæri í Barentshafi, þannig að mikið af þeim seiðum sem gengu til sjávar hafi lifað af og síðan þeir fiskar sem eru hérna hjá okkur eru að villast og rati ekki aftur heim.“    

Hnúðlaxinn gæti myndað stofna í íslenskum ám

En það sé óvíst hvaða áhrif þetta hafi. Þegar svo mikið sé af hnúðlaxi geti hann mögulega náð hér fótfestu og myndað stofna. En hann sé dreifður um landið og þar séu á ferðinni fiskar sem séu að leita fyrir sér og viti ekki hvert þeir eigi að fara. Það bendi síður til þess að hann sé farinn að hrygna, þó það sé mögulegt. „Það eru engar vísbendingar um það ennþá, en það er vel mögulegt. Og þeir eru hrignandi í norskum ám og þetta árið hafa Norðmenn einmitt farið í átak í að veiða upp fleiri hundruð laxa í sumum þeirra ám, einmitt til þess að koma í veg fyrir það að þeir viðhaldi sér. Hinsvegar þá eru þeir yfirleitt að hrygna neðst í ám og það er ekki talið að þeir hafi, allavega það sem menn þekkja hingað til, mikil áhrif á þær tegundir sem við höfum allavega hér í okkar ám. En vissulega er það möguleiki að þeir gætu náð hér fótfestu og myndað hér stofna,“ segir Guðni. 

Rétt að fylgjast með þróuninni áfram

Og Guðni segir það þess virði að fylgjast með því í framtíðinni, bæði hvort hnúðlaxinum haldi áfram að fjölga og eins hvort hann nái hér fótfestu og þá hvaða áhrif það hafi. „Því það er alveg mögulegt að ef að það myndi gerast hér, þá hafi það önnur áhrif heldur en menn þekkja annarsstaðar. Og þetta myndi þá hafa áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika, það myndi fjölga hér um eina tegund. En hvort að það hefði áhrif á aðrar tegundir, eða hvort menn gætu nýtt hann á einhvern hátt, það verður síðan þá bara að koma í ljós.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV