Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óvenjulegt starf: „Kannski ekki allra“

Mynd:  / 
Það er frekar óljóst hvað nákvæmlega felst í starfi aðstoðarmanns í NPA, þrátt fyrir að um hálft ár sé liðið frá því lög um NPA tóku gildi og fyrstu NPA samningarnir hafi verið gerðir fyrir nokkrum árum. Starfið er óvenjulegt og vaktirnar geta verið allt að tveggja sólarhringa langar. Oftast gengur vel en fulltrúi Eflingar segir dæmi um að þangað leiti niðurbrotnir aðstoðarmenn. Það eru líka dæmi um að aðstoðarmenn brjóti á notendum, NPA miðstöðin hefur kært slíkt mál til lögreglu. 

Reynslumikið tvíeyki

Til að fá betri tilfinningu fyrir samskiptum aðstoðarmanna og notenda ræddi Spegillinn við það tvíeyki sem hefur sennilega einna mesta reynslu af slíku samstarfi á landinu. Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, formaður NPA miðstöðvarinnar, var með þeim fyrstu til að fá notendastýrða persónulega aðstoð hjá Reykjavíkurborg eftir að tilraunaverkefni sveitarfélaga með NPA hófst árið 2012. Hann er með hálsmænuskaða og þarf því aðstoð við flest. Hann er með þrjá aðstoðarmenn í vinnu og einn þeirra, Sigurður Egill Ólafsson, hefur starfað fyrir hann í tæp sex ár.

Mynd með færslu
 Mynd:
Rúnar segist oft nota bendingar í samskiptum við aðstoðarmenn sína.

Rúnar lýsir samskiptunum:  „Þegar aðstoðarmenn mínir eru orðnir mjög vanir mér fara þeir að þekkja hvað ég vil, þegar ég kem niður í Öryrkjabandalag vita þeir að kaffibolli er fyrsta mál á dagskrá, svo tala ég oft við þá með lágum hljóðum eða bendingum, ég bendi á augun á mér og þá vita þeir að ég vil fá gleraugun, ég slæ í höfuðið á mér og þá vita þeir að það er kominn tími á húfu. Þetta verða svona auðveld samskipti. Stundum nota ég bara augnsamband, ef maður er á stórum fundi getur maður náð augnsambandi við þá og gefið merki um hvað maður vill, bent á bollann eða eitthvað svoleiðis. Svo er ýmislegt sem maður þarf að útskýra mjög vel og vandlega, ef við erum að dúlla okkur eitthvað heima í einhverju verkefni, laga eitthvað eða taka eitthvað í sundur, svona hobbí. Svo stundum fá þeir að fara eitthvað afsíðis og þá nota ég mikið Facebook, sendi þeim thumbs up þegar ég vil ná á þeim og þá koma þeir til mín. Ég hef alltaf verið svolítið þannig að þegar fólk fer að þekkja mig fer ég að tala við það með svona handahreyfingum.“ 

Ekkert fimm mínútna spjall við vini og kunningja

Rúnari helst vel á starfsfólki. Sá sem hefur unnið hjá honum styst hefur unnið í þrjú og hálft ár, sá, sem hefur unnið lengst, í tæp sex. Rúnar segist sneiða hjá því að ráða skólafólk í leit að hlutastarfi, hann vilji frekar ráða fólk í fullt starf. Hann segir mikilvægt að sýna aðstoðarmönnum tillit og virðingu og lifa virku lífi, gera eitthvað skemmtilegt, þá gefi starfið aðstoðarmönnunum meira.  

Í starfslýsingu, sem Rúnar semur fyrir aðstoðarmenn, er að finna reglur um hvar ýmis mörk liggi. Til dæmis er þar kveðið á um að starfsmenn spjalli ekki við vini og kunningja sem þeir hitta á förnum vegi. „Þá áttu að segja að þú sért í vinnunni og getir ekki talað núna, ég gef engar fimm mínútur.“

Jafnvel ekki þó það sé einhver sem aðstoðarmaðurinn hefur ekki hitt í tíu ár? „Nei, þú myndir ekki vera hress ef starfsmaður á kassa væri að spjalla við einhvern í fimm mínútur,“ segir Rúnar. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rúnar kærir sig ekki um að bíða á meðan aðstoðarmaðurinn lendir á kjaftatörn í Kringlunni.

Aðstæðubundin tengsl

Tengslin eru ólík bæði eftir því hver aðstoðar hann hverju sinni og eftir aðstæðum. Rúnar segir að aðstoðarmennirnir verði líka vinir hans, það sé kannski eitthvað sem fáir viti. „Af því að um leið og ég er kominn út á meðal fólks draga þeir sig í hlé, það er þar sem þeir hafa þessi skýru mörk, sem eru samt ekki alveg skýr, um að þegar ég er í vinnunni, úti í bæ eða með vinum og fjölskyldu eru þeir í allt öðru hlutverki en þegar við erum kannski í bílnum á leiðinni þangað.“

Engir matartímar og tveggja sólarhringa vaktir

Í gildi er kjarasamingur NPA miðstöðvarinnar við Eflingu, Starfsgreinasambandið og fleiri félög frá árinu 2015. Sumt er óvenjulegt í samningnum. Aðstoðarfólk í vaktavinnu fær til dæmis ekki sérstaka matar- og kaffitíma en er heimilt að neyta matar og kaffis við vinnu sína á vaktinni þegar því verður við komið. Svo er það lengd vakta. Vaktafyrirkomulagið í NPA getur verið mjög breytilegt, allt eftir því hvað hentar hverjum notanda. Stystu vaktirnar, eru aðeins þrír klukkutímar.

Aðstoðarmenn Rúnars vinna langar vaktir. Í gildi er sérstök undanþága um frávik frá vakt- og hvíldartíma. Það má því skipuleggja allt að 48 klukkustunda vaktir, eða tvær samliggjandi sólarhringsvaktir, að því gefnu að aðstoðarmanni sé tryggð allavega átta tíma hvíld á sólarhring, þar af sjö tíma samfelld hvíld með að hámarki einu hvíldarrofi. Undanþágan hefur ítrekað verið framlengd og gildir út þetta ár skv. þingskjali nr. 735/149. 

Hringir bjöllu þegar hann þarf aðstoð

Sigurður Egill og aðrir starfsmenn Rúnars eru með aðstöðu í herbergi heima hjá honum og hvíla sig yfirleitt þar á meðan hann sefur. Hann getur svo hringt bjöllu ef hann þarf á þeim að halda. Sumir viðhafa annað fyrirkomulag, geta kveikt ljós í herbergi aðstoðarmanns þegar þá vantar aðstoð. Rúnar segir þetta vaktafyrirkomulag tryggja ákveðna samfellu, starfsmennirnir viti þá hvað er í gangi í hans lífi, hann þurfi ekki að byrja hvern dag á að segja starfsmanninum hvað hann gerði í gær. 

Gefandi starf en kannski ekki allra

Mynd með færslu
 Mynd:
Sigurður Egill hefur starfað fyrir Rúnar í tæp sex ár.

Sigurði Agli líkar starfið vel, finnst  mikilvægt og gefandi að geta veitt Rúnari tækifæri til að gera það sem hann vill, vera hendur hans og fætur. En er eitthvað erfitt við starfið? „Það fer örugglega bara dálítið eftir fólki, þetta er ekkert fyrir alla, eins og hægt er að segja um öll störf. Þetta getur verið rosalega persónulegt. Maður er að sjá um persónulegt hreinlæti og salernisferðir og svoleiðis, sumum finnst það ekkert mál en aðrir geta kannski ekki ímyndað sér að gera það. Annars er þetta kannski bara jafn fjölbreytt og það eru margir notendur, líka bara hjá mér, það getur verið mjög misjafnt eftir dögum og tímum. Það getur verið mjög mikið að gera en svo koma kaflar sem eru mjög rólegir.“

Mikilvægt að vera ekki uppáþrengjandi

Sigurður Egill segist líta svo á að með þeim Rúnari hafi þróast vinatengsl. „Já þetta hefur klárlega þróast á þá leið að hann er ekki bara minn yfirmaður og ég er ekki bara starfsmaður, við erum líka mjög góðir vinir en maður verður að þekkja mörkin og oftast er samband okkar þannig að það er mjög augljóst að ég sé í vinnunni. Maður fer alveg í vinagírinn stundum, fíflast og djókar en það þarf að vita hvar mörkin eru, hvenær það er við hæfi og hvenær ekki.“

Tók það tíma að læra það?

„Nei, mér fannst það ekkert mál, það var mér frekar eðlislægt en það er ekkert þannig hjá öllum, stundum þarf kannski að hafa þetta skýrara og setja meiri mörk. Þetta er erfitt fyrir suma, ég get verið svo rólegur. Þetta snýst mikið um að lesa úr aðstæðum. Maður þarf að vera til staðar en á sama tíma má maður ekki vera uppáþrengjandi.“ 

Mynd með færslu
 Mynd:
Rúnar Björn og Sigurður Egill.

Þegar kemur að því að vera hendur hans og fætur, er eitthvað sem þú vilt ekki gera fyrir hann? 

„Ja, það er spurning,“ segir Sigurður og hlær. „Það hefur kannski einhvern tímann komið eitthvað fyrir sem maður hefur verið hikandi við en samband okkar er það gott að við vitum oft, það er virðing á báða vegu þannig að hann veit hvenær hann á að fara varlega og ég veit að ég má alveg segja eitthvað ef það er eitthvað sem mér finnst óþægilegt. Þó hann sé stjórnandinn þýðir það ekki að hann geti sagt mér að gera hvað sem er, ég hef alveg rödd sem ég má nota. Er umgjörðin um starfið nógu skýr og réttindin virt? Já, ég held það. Auðvitað eru kostir og gallar við langar vaktir, sérstaklega þegar maður er ekki að sofa heima hjá sér, það er ekkert skemmtilegt sko en á móti hefur maður stundum mikið frí.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Sigurður býst við því að umgjörðin um starfið skýrist með auknu

Hann segir að starfið sé líka að verða aðeins skipulagðara, NPA-miðstöðin hafi stækkað og það séu að koma fleiri námskeið. „Þannig að starfsmenn gera sér betur grein fyrir því hvað er í lagi og hvað ekki og ef það er einhver vafi er hægt að hafa samband við og tala við trúnaðarmann og svona, það geta komið upp atvik sem maður veit ekki hvort séu í lagi, má ég gera þetta, getur hann ætlast til þessa af mér, má ég segja nei?“

Það gengur vel hjá Rúnari og Agli og það virðist eiga við um flesta en þó ekki alla notendur og aðstoðarmenn. 

Sex prósent sögðust hafa orðið fyrir ofbeldi

Heiður Hrund Jónsdóttir, rannsakaði fyrir þremur árum starfsaðstæður aðstoðarfólks. í ljós kom að flestir voru ánægðir í starfi en tæpur helmingur sagðist alltaf úrvinda eftir vinnu og sumir sögðust hafa íhugað að hætta vegna óskýrra hlutverka bæði notanda og aðstoðarmanns. Þá sýndi rannsóknin að sex prósent sögðust hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu notandans. Aðeins fimmtungur aðstoðarmannanna hafði setið námskeið um starfið. 

Kynlíf og flutningahjálp

Ragnar Ólason, sviðsstjóri kjaramála hjá Eflingu, segir að félaginu berist öðru hverju mál tengd NPA. Þessi mál geti verið mjög sérkennileg og það skrifist einkum á þá miklu nánd sem starfið felur í sér. Hann segir aðstoðarmenn yfirleitt leita til félagsins vegna launamála en líka til að fá úr því skorið hvar mörkin í starfinu liggi, til hvers notandi geti ætlast af þeim. „Oft á tíðum mjög erfið og snúin mál því þetta snýst um mjög náin tengsl á milli þessara einstaklinga,“ segir Ragnar.

Mynd með færslu
 Mynd:
Erfið mál tengd NPA hafa borist inn á borð Eflingar.

Hann nefnir dæmi þar sem notandi vildi hjálpa vini sínum að flytja, aðstoðarmaðurinn átti þá að bera þunga hluti út úr íbúð vinar hans. Þá segir hann að upp hafi komið tilvik þar sem aðstoðarmaður bjó hjá notanda, og mörkin milli vinnu og einkalífs fóru úr skorðum, sem og dæmi um að aðstoðarmenn, sem vinni langar vaktir, hafi þurft að sofa inni í herbergi notanda en ekki í sér herbergi á heimili hans. Verstu dæmin séu þó þegar notendur hafi beðið aðstoðarmenn um að fullnægja sér kynferðislega, aðstoðarmenn hafi leitað til félagsins niðurbrotnir í kjölfar slíkra atvika. 

Gráu svæðin spanni allt lífið

Hjörtur Eysteinsson, framkvæmdastjóri NPA-miðstöðvarinnar, segir að grundvallarreglan sé sú að notandi geti ekki ætlast til þess að aðstoðarmaðurinn geri eitthvað ólöglegt eða eitthvað sem skaðar aðra eða hann sjálfan, síðan séu grá svæði í samskiptunum sem spanni í raun allt sem geti komið upp á í lífi fólks. Það hafa borist ýmis álitamál inn á borð miðstöðvarinnar sem lúta að samskiptum aðstoðarmanns við notanda og árekstrum í samskiptum aðstoðarmanns við aðra á heimili notanda. Ekkert þessara mála segir hann hafa verið alvarlegs eðlis. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Mörkin í NPA eru óskýr og Hjörtur segir að umræða um siðferðisleg mörk verði alltaf umdeild.

Að mati Hjartar ættu notendur að geta hjálpað vinum sínum að flytja, honum finnst því ekki óeðlilegt að aðstoðarmenn beri húsgögn en aftur á móti segir hann ekki hægt að ætlast til þess að þeir púli allan daginn. Hvað varðar þau tilvik þar sem notendur hafa beðið aðstoðarmenn að aðstoða sig við kynlíf eða kynlífsathafnir segir hann mörkin óskýr. Kynlíf sé eðlilegur og sjálfsagður partur af lífi fólks en að sama skapi sé erfitt að ætlast til þess að aðstoðarmenn aðstoði við það og auðvelt að ímynda sér að aðstoðarmönnum þyki slíkt óþægilegt. 

Blautur gluggi með óskýran bakgrunn
 Mynd: Stocksnap.io
Framkvæmdastjóri miðstöðvarinnar segir gráu svæðin spanna allt lífið.

Námsmenn þurft að neita sér um að skipuleggja hvíldarvaktir

Hjörtur segir mikilvægt að aðstoðarmenn hafi góða sérútbúna gistiaðstöðu ef þeir eiga að hvílast á vöktum með notandanum. Ekki sé hægt að ætlast til þess að aðstoðarmaður gisti í sama rúmi og notandinn. Hjörtur segir að krafa um að aðstoðarmenn geti hvílst í sér útbúinni aðstöðu hafi leitt til þess að sumir geti ekki nýtt sér hvíldarvaktir þó samningar þeirra kveði á um hana, þannig séu dæmi um að notendur sem búa á stúdentagörðum hafi þurft að afsala sér slíkri þjónustu því þeirbúi of þröngt eða þurft að nýta sér vakandi vaktir, þar sem aðstoðarmaðurinn er vakandi á meðan notandinn hvílist.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á stúdentagörðum Hí.

Stéttarfélögin sýni ekki nægan skilning

Hann telur ekki æskilegt að starfslýsing aðstoðarmanns verði of niðurnjörvuð,  þetta sé ekkert venjulegt starf og enginn skilgreindur vinnustaður. Honum finnst launþegahreyfingin ekki sýna sérstæðu starfsins nægan skilning. Það að vilja að um það gildi sömu reglur og um hefðbundin störf bendi til takmarkaðs skilnings á NPA og því hvernig aðstoðarmenn eigi að starfa. Stéttarfélögin séu tilbúin til að veita undanþágu frá hvíldartíma en samt virðist þau ekki tilbúin að ræða rýmri nálgun en gildi um störf almennt. Hjörtur, bendir á að það sé oft dauður tími í þessu starfi, það komi á móti álagstímum og náið samstarf notenda og aðstoðarmanna geri starfið oft mjög óhefðbundið. Þörf sé á meiri nýsköpun innan verkalýðshreyfingarinnar og mögulega þyrfti NPA miðstöðin og notendur að veita þeim meiri fræðslu og leiðsögn í þeim efnum. Þetta sé stétt sem komi til með að stækka mikið og verða talsvert stór og helst myndi miðstöðin vilja að stéttarfélögin tækju þátt í að móta starfsumhverfi stéttarinnar með tilliti til sérstöðu hennar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook/NPA-miðstöðin
Rúnar og fleiri að berjast fyrir NPA, fyrir tilkomu laganna.

Handbók á leiðinni en óljóst hvort hún skýrir mörkin

Starfslýsing aðstoðarmanns ræðst fyrst og fremast af þörfum notanda. Notanda ber þó, samkvæmt reglugerð, að tryggja aðstoðarfólki laun í samræmi við kjarasamninga og vinnuaðstæður í samræmi við lög um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum. Þá eiga notendur og aðstoðarfólk að sitja námskeið á vegum ráðuneytisins, þessi námskeið eru ekki farin af stað en eiga að hefjast á næstunni. Þá skýrast mörkin í samskiptum notanda og aðstoðarmanns  mögulega betur þegar handbók um NPA verður gefin út, hún er í vinnslu í ráðuneytinu, átti að verða tilbúin í byrjun mars. Hjörtur, segir að í kafla hennar um siðferðileg álitamál verði þó fyrst og fremst fjallað um frelsi og sjálfsákvörðunarrétt. Hjörtur segir að þess megi vænta að öll umfjöllun um siðferðisleg álitamál í NPA verði umdeild og flókin, þessi mál séu oft háð gildismati og einstaklingsbundið hvar fólk dragi mörkin. Það sé því óljóst hversu mikið handbókin hjálpi við að skýra þau. 

Brot gegn notanda kært til lögreglu

Hjörtur segir mikilvægt að halda því til haga að notendur séu oft sérstaklega berskjaldaðir gagnvart aðstoðarmönnum. Vegna eðlis samskiptanna skipti miklu að hafa millilið á borð við miðstöðina sem bæði notendur og aðstoðarmenn geta leitað til og fengið ráðgjöf, því það geti komið upp ýmis snúin álitamál.

„Það má sjá fyrir sér aðstæður þar sem aðstoðarmaður stelur frá notanda eða beitir hann ofbeldi eða öfugt, það getur verið að aðstoðarmaður upplifi sig hafa verið beittan nauðung eða hann er settur í aðstæður sem honum finnast óþægilegar.“

Þetta sé ekki algengt en mál af þessu tagi hafi komið upp, og í einu tilfelli hafi brot aðstoðarmanns gegn notanda verið kært til lögreglu. 

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Málið sem kært var til lögreglu varðar stuld á greiðslukorti.

Treysta sér ekki til að hitta hinn aðilann aftur

Miðstöðin hefur þurft að grípa inn í.  „Við höfum þurft að takast á við mál þar sem notandi getur ekki hitt aðstoðarmanninn aftur, treystir sér ekki til þess og óskar eftir því að miðstöðin leysi úr málinu. Þetta getur líka verið öfugt, að aðstoðarmaðurinn upplifir aðstæður í vinnunni sem hann treystir sér ekki til að mæta aftur, þá er betra fyrir hann að eiga farveg, geta leitað réttar síns, leitað lausna.“