Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óvenju mikil umferð rússneskra herflugvéla

09.08.2019 - 01:18
Mynd með færslu
Rússnesk Mikoyan MIG31-orrustuþota eins og sú sem flaug meðfram Noregsströndum á fimmtudag Mynd: Wikimedia Commons
Norski flugherinn sendi í þrígang orrustuþotur á loft í gær til að fylgjast með ferðum rússneskra herflugvéla meðfram Noregsströndum, og hrekja þær úr norskri lofthelgi ef með þyrfti. Til þess kom þó ekki. Norsku þoturnar voru á vegum Atlantshafsbandalagsins í þessum aðgerðum.

Rússnesku vélarnar voru í allt níu talsins og talskona Noregshers, Elisabeth Eikeland, segir í samtali við vefmiðilinn aldrimer.no að þetta sé vissulega óvenju mikil umferð. Svo margar rússneskar herflugvélar hafi aldrei flogið svona nærri Noregi á þeim fjórum árum sem hún hefur starfað hjá hernum.

Vélin sem flaug lengst suður með ströndinni fór alla leið að Bodø, upplýsir norski herinn. Fyrstu vélar norska flughersins voru ræstar út klukkan hálfsjö í gærmorgun að staðartíma, þær næstu stuttu fyrir hádegi og þriðja þotuparið var sent á eftir rússneskum gestum skömmu fyrir klukkan átján. Rússnesku vélarnar voru flestar könnunar- og eftirlitsvélar, en tvær eldsneytisvélar og ein MIG 31-orrustuþota voru líka á ferðinni við Noregsstrendur í dag.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV