Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Óvarfærin umfjöllun var aðstandendum erfið

11.10.2017 - 18:59
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Sigurlaug Hreinsdóttir, eða Silla, móðir Birnu Brjánsdóttur, segist hafa upplifað endurtekið áfall vegna óvarfærinnar fjölmiðlaumfjöllunar við aðalmeðferð í dómsmálinu yfir Thomasi Möller Olsen. Hún segir að umfjöllun um málið sé nauðsynleg, en það skipti miklu fyrir aðstandendur hvernig sú umfjöllun er sett fram.

Íslenska þjóðin sameinaðist í sorg vegna sviplegs fráfalls Birnu Brjánsdóttur í byrjun árs. Þúsundir minntust Birnu í göngu í miðbæ Reykjavíkur í janúar og kveikt var á kertum til minningar um Birnu á Grænlandi og í Færeyjum. Silla, móðir Birnu, segir að stuðningur almennings hafi gefið henni styrk til að takast á við erfiðleikana. „Það hefur verið ofboðslega mikilvægt fyrir mig að finna þennan stuðning, af því að þetta er þannig mál, þetta er svo opinbert. Það hefur gefið mér mikinn styrk og ég fann það kannski ekki fyrr en löngu seinna, eftir janúar, hvað það hélt mér gangandi, og bara okkur öllum, að finna þennan ofboðslega velvilja og samkennd,“ segir Silla.  „Og svo aftur þegar að umfjöllunin í aðalmeðferðinni varð svona erfið fyrir mig, það var gríðarlegt áfall að sjá það, það var endurtekið áfall, og þá fékk ég ofboðslega mikinn styrk að sjá á Facebook hvað færslan mín og Vigfúsar Bjarna, sem að stóð með mér, fékk mikla deilingu, bara að finna það gaf mér aftur kraftinn til þess að geta haldið áfram.“

Hún segir að hlutverk fjölmiðla hafi verið mikilvægt en miklu máli skipti hvernig umfjöllun þeirra er sett fram. „Mér finnst mikilvægt að Birna fái að halda reisn, að það sé talað um hana þannig að hún haldi reisn, að það sé talað um hana af virðingu og hennar sakleysi sé verndað.“

Hún segir rangt að tengja ofbeldisverknað við þolendur og vill ekki að fjallað sé um dómsmálið yfir Thomasi Möller Olsen sem Birnu-málið. Með því sé verið að tengja við hana ljótleika sem ekki tilheyri saklausri og yndislegri manneskju. „Það þarf að aftengja Birnu, sem er saklaus, frá ljótleikanum. Ég myndi vilja að það væri fjallað um hana þannig að hennar nafn, hennar minning sé aftengd ljótleikanum af því að það tilheyrir öðrum.“

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV