Óvænt frá Högna og Pollapönki

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Virkir morgnar

Óvænt frá Högna og Pollapönki

10.02.2016 - 16:35

Höfundar

Gestir í Háskólabíó og sjónvarpsáhorfendur eiga von á góðu á laugardaginn þegar síðari undanúrslitariðill Söngvakeppninnar fer fram í Háskólabíói. Þar troða upp sérstakir gestir eins og síðasta laugardag og að þessu sinni eru að Högni Egilsson, söngvari og lagahöfundur úr Hjaltalín og æringjar í Pollapönki sem kepptur fyrir Íslands hönd í Kaupmannahöfn árið 2014. Og þeir lofa einhverju óvæntu og skemmtilegu!

Högni Egilsson skaust upp á stjörnuhimininn með hljómsveit sinni Hjaltalín árið 2007 en þá kom fyrsta plata sveitarinnar, Sleepdrunk Seasons, út. Hljómsveitin vakti strax athygli fyrir frumlega hljóðfæraskipan, söng Högna og Sigríðar Thorlacius og tónsmíðar Högna sem voru ferskar og nýstárlegar í íslensku poppi. Síðan þá hefur sveitin haldið stöðu sinni sem ein framsæknasta sveitin á íslensku rokksenunni, átt vinsæl lög, unnið til verðlauna og vakið athygli langt út fyrir landsteinana. Högni hefur einnig unnið að sóló verkefnum, t.d. tónlist við sýningu Þjóðleikhússins á Englum alheimsins. Mikil leynd hvílir yfir framlagi hans á laugardaginn.

Pollapönk er óþarfi að kynna enda hafa þeir félagar Halli, Heiðar, Addi og Guðni notið gríðarlegra vinsælda hjá Íslendingum á öllum aldri. Hljómsveitin var stofnuð árið 2006 en áður höfðu allir meðlimir vakið athygli í nokkrum af framsæknari hljómsveitum Íslands eins og Botnleðju, Dr. Spock og Ensími. Pollapönk spilar krafmikla rokktónlist fyrir börn og hika ekki við að taka á viðkvæmum málum í textum sínum. Lagið þeirra í Eurovision, Enga fordóma, hefur notið mikilla vinsælda en á laugardaginn ætla þeir að spila syrpu laga úr Söngvakeppninni. Það verður spennandi að sjá hvaða tónlist þeir félagar velja.

Útsending á laugardaginn hefst á RÚV kl. 20.00.