Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Outlaws komnir til Íslands

08.12.2011 - 19:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Alþjóðlegu vélhjólasamtökin Outlaws sem talin eru tengjast skipulögðum glæpum eru formlega komin til Íslands. Lögreglan segir algjörlega nauðsynlegt að halda áfram átaki gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

Vélhjólasamtökin Outlaws hafa merkt sér hús við Trönuhraun í Hafnarfirði. Lögregla telur þetta staðfesta að samtökin hafi hafið starfsemi hér á landi. Hún telur bráðnauðsynlegt að halda áfram átaki gegn skipulögðum glæpum.

Það var í mars á þessu ári sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hleypti af stokkunum átaki gegn skipulagðri glæpastarfsemi á Íslandi og lagði í það tæpar 50 milljónir króna.

Átakið var hugsað til eins árs og ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort halda eigi því áfram. Snorri Magnússon,formaður Landssambands Lögreglumanna segir að átakið hafi gengið vel. Lögregla hafi geta aflað upplýsinga og kortlagt það sem sé að  gerast í undirheimunum. 

„Og það ríður á miklu að þetta verði viðvarandi, þú afgreiðir ekki rannsóknir eða eftirlit eða neitt þvíumlíkt gegn skipulagðri glæpastarfsemi með átaksverkefni. Þetta er eitthvað sem þarf að vera viðvarandi,“ segir Snorri. 

Snorri segir þörfina sérstaklega mikla einmitt nú, þegar skipulögð glæpastarfsemi færist í vöxt með hverjum deginum sem líður.

Ljóst er að vélhjólasamtökum er að fjölga á Íslandi, og þannig merktu alþjóðlegu vélhjólasamtökin Outlaws sér þetta hús hér í Hafnarfirði fyrir nokkrum vikum. Snorri segir það skýrt merki þess að samtökin séu að skjóta hér rótum.

Lögreglan hefur lengi vitað um tengingar Outlaws hingað til lands, þá sérstaklega í gegnum stuðningsklúbbinn Black Pistons, en telur hins vegar að klúbbhúsið í Hafnarfirði staðfesti endanlega að samtökin hafi hafið starfsemi á Íslandi. Outlaws eru oft nefnd í sömu andrá og samtök á borð við Hells Angels sem þegar hafa náð fótfestu hér á landi.

Meintur höfuðpaur Outlaws er talinn tengjast skotárásinni í Bryggjuhverfinu hinn 18. nóvember. Sömuleiðis er vopnafundur lögreglu í lok nóvember talinn tengjast samtökunum, en þar var á ferðinni mesta magn vopna sem lögregla hefur lagt hald á í einu lagi. Snorri segir að samtök eins og Outlaws standi í ýmiss konar glæpastarfsemi,  fíkniefnamisferli í öllum þeim myndum sem því fylgi, innflutningi, sölu, dreifingu, mansali, vændi, ofbeldi, skotvopnamál, skotárásum og fleiru í þeim dúr.