Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óuppgerður kafli Íslandssögunnar

05.12.2017 - 19:03
SONY DSC
 Mynd: Wikimediacommons
Mótmælin við heimili stjórnmálamanna eru hluti af kafla í Íslandssögunni sem þjóðin á eftir að gera upp. Þetta segir Hulda Þórisdóttir stjórnmálasálfræðingur. Margir hafi leitað að blóraböggli til að skeyta skapi sínu á, og gefið hafi verið veiðileyfi á stjórnmálamenn og útrásarvíkinga. 

Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Ragna Árnadóttir hafa stigið fram og lýst þeirri reynslu þegar mótmælendur sátu um heimili þeirra í kjölfar hrunsins. Mótmæli og skemmdarverk urðu algeng við heimili umdeilds fólks á árunum 2009 og 2010. 

„Það sem var náttúrulega í gangi var mjög sterk tilfinning fólks um allsherjar upplausnarástand. Það hafði átt sér stað þetta allsherjarrof í samfélagssáttmálanum, að minnsta kosti samskiptum okkar borgaranna við yfirvöld. Þannig að það var bara mjög sterk tilfinning fyrir því að nú ætti bara að skrifa reglurnar upp á nýtt," segir Hulda Þórisdóttir stjórnmálasálfræðingur og dósent við HÍ.

Þandar taugar þjóðarinnar

Mótmælin við heimili fólks náðu hámarki í apríl 2010. Það var heilu ári eftir að skýrsla um umdeilda styrki til stjórnmálamanna kom út. Taugar þjóðarinnar voru þandar á þessum tíma. Eldgos hófst á Fimmvörðuhálsi 20. mars. Rannsóknarskýrsla Alþingis um bankahrunið kom út 12. apríl, og svo hófst nýtt gos í Eyjafjallajökli 14. apríl. Á sama tíma var mótmælt við heimili margra stjórnmálamanna, til dæmis Guðlaugs Þórs, Steinunnar Valdísar og Þorgerðar Katrínar.

„Það er svolítið merkilegt til þess að hugsa núna þegar maður hugsar til baka, hvers vegna stigu ekki fleiri fram til að koma þessu fólki, og fyrst og fremst konum, til varnar? Og þá gleymum við kannski því hvernig andrúmsloftið var og hvað við mótumst öll af aðstæðum sem eru ríkjandi hverju sinni. Þetta voru óskaplega sterkar aðstæður og það var alls ekkert í tísku að verja stjórnmálamenn. Það var ákveðið veiðileyfi á stjórnmálamenn og útrásarvíkinga," segir Hulda.

Meiri siðferðiskröfur til kvenna

Konur urðu yfirleitt verr úti í þessum mótmælum en karlar. 

„Ein svona sterk staðalímynd um konur er að þeim er lýst sem á siðferðislega hærra plani en karlar. Og ef þessar staðalímyndir eru brotnar, ef kona sýnir siðferðislega veikleika, þá er þeim refsað sérstaklega harkalega," segir Hulda og bætir við að rannsóknir sýni að fólk veiti reiði sinni og hræðslu útrás með því að finna blóraböggul. Hann sé ekki endilega fundinn með röklegum aðferðum, heldur einmitt með staðalímyndum. 

„Þarna erum við náttúrulega að tala um tíma hjá íslensku þjóðinni sem við eigum að mörgu leyti eftir að gera upp. Við höfum gert miklu meira til að gera upp þennan tíma fram að hruni með formlegum skýrslum eins og allir vita, en við erum kannski fyrst núna að byrja að stíga upp úr hinum tímanum, núna tíu árum síðar."