Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óttuðust að neyðarlögin færu gegn stjórnarskrá

05.10.2018 - 19:57
Mynd: RÚV / RÚV
Setning neyðarlaganna var grundvallaratriði í því að bjarga íslenku efnahagslífi þegar bankarnir féllu. Þetta segir Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður og einn þeirra sem komu að því að semja lögin fyrir nákvæmlega tíu árum. Hann segir að þeir sem tóku þátt í að skrifa neyðarlögin hafi haft mjög miklar áhyggjur af því hvort þau stæðust stjórnarskrá.

Neyðarlögin svokölluðu voru sett fyrir réttum 10 árum, sama dag og Geir H. Haarde þáverandi forsætisráðherra flutti eftirminnilegt ávarp í beinni útsendingu. Íslenska bankakerfið var orðið alltof stórt og skuldsett, og íslensk stjórnvöld gátu ekki bjargað því. Í stuttu máli gengu neyðarlögin út á að veita Fjármálaeftirlitinu heimildir til að taka banka yfir og ríkinu til að stofna ný fjármálafyrirtæki og veita innstæðum forgang fram yfir aðrar kröfur í þrotabú bankanna.

„Það gerast þarna hlutir, sérstaklega í lok föstudagsins 3. október sem gera hlutina mjög alvarlega,“ segir Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins. „Það koma hertar kröfur frá Bretlandi gagnvart Landsbankanum. Evrópski seðlabankinn er að gera veðköll og það má ekki gleyma því að það var nánast innistæðuáhlaup seinni partinn á föstudeginum. Þannig að staðan var orðin mjög alvarleg þarna á föstudagskvöldi og menn eru þarna um helgina að velta öllum möguleikum fyrir sér.“

Þá var rykið meðal annars dustað af frumvarpi sem hafði verið í vinnslu, allt frá því í febrúar 2006.

„Það hafði verið hópur hjá stjórnvöldum sem hafði verið að meta mögulegan viðbúnað í fjármálakerfinu og ein af hans niðurstöðum var sú að Fjármálaeftirlitið hefði ekki nægar valdheimildir til að bregðast við ef eitthvað kæmi upp,“ segir Jónas.

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Hér má sjá viðtalið við Jónas Fr. Jónsson í heild sinni.

Gengu nærri sér

Þessa helgi var unnið að því í Fjármálaeftirlitinu og viðskiptaráðuneytinu að klára lögin og bæta við þau og reyna þannig að bjarga því sem bjargað varð. Einn þeirra sem kallaður var til var Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður sem var að koma úr leikhúsi að kvöldi laugardagsins 4. október þegar Jónas hringdi í hann.

„Mér var gerð grein fyrir því að mál gætu skipast þannig á næstu dögum að bankarnir, einn eða jafnvel allir myndu fara á hausinn. Og þarna var fólk að vinna úr því, hvernig yrði unnið úr þeirri stöðu,“ segir Jóhannes. „Það fundu það auðvitað allir að það var eitthvað sögulegt í uppsiglingu og fólk lagði gríðarlega hart að sér og það var mikið unnið á fáum dögum og ég held að margir hafi gengið ansi nærri sér.“

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Hér má sjá viðtalið við Jóhannes Karl Sveinsson í heild sinni.

Frumvarpið var svo lagt fram á mánudeginum. Lögin voru umdeild, enda róttæk, og þegar Hæstiréttur úrskurðaði í október 2011 að lögin stæðust eignarréttarákvæði stjórnarskrár skilaði Jón Steinar Gunnlaugsson sératkvæði sem var á skjön við niðurstöðu meirihlutans.

„Auðvitað er þetta ekki eitthvað sem gerist á hverjum degi og ýmis ákvæði í stjórnarskrá um friðhelgi eignarréttar og fleira sem margir höfðu mjög miklar áhyggjur af,“ segir Jóhannes.

Nú eru tíu ár liðin, svona eftir á að hyggja, hversu miklu máli skipti þessi lagasetning fyrir hvernig fór?

„Hún var algjört grundvallaratriði. Það hefði ekki verið hægt að gera neitt nema vegna þess að allir þessir hlutir voru til staðar í neyðarlögunum. Í fyrsta lagi forgangsréttur innistæðna, í öðru lagi þessar heimildir FME, og í þriðja lagi heimild fjármálaráðherra til þess að stofna nýjar bankastofnanir. Það var gert á nokkrum dögum þarna í vikunni sem byrjar 6. október. Þetta var allt heimilað í neyðarlögunum.“