Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Óttast um framtíð Þjóðskjalasafns

Bréf Rannveigar Jónsdóttur móður Jónasar Hallgrímssonar til biskups. Skjalið er í vörslu Þjóðskjalasafns Íslands.
 Mynd: Þjóðskjalasafn Íslands

Óttast um framtíð Þjóðskjalasafns

12.12.2015 - 11:49

Höfundar

Koma þarf í veg fyrir að ófagleg skammtímajónarmið sem stefni rekstri og öryggi Þjóðskjalasafnsins í voða. Þetta segir stjórn Félags héraðsskjalavarða í áskorun til þingmanna. Skjalaverðir óttast að húsnæði safnsins verði selt.

Félag héraðsskjalavarða á Íslandi skorar á alþingismenn að standa vörð um húsnæðismál Þjóðskjalasafns Íslands og koma í veg fyrir að ófagleg skammtímasjónarmið stefni rekstri þess og öryggi í voða.

Tók 13 ár að flytja í Mjólkursamlagshúsið

Þetta kemur fram í áskorun stjórnar félagsins til þingmanna. Stjórnin segir að fyrir Alþingi liggi nú breytingartillaga meirihluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016 um að húsnæði Þjóðskjalasafns Íslands við Laugaveg 162 verði selt og í staðinn verði keypt eða leigt annað hentugt húsnæði. Tillögurnar hafi komið fram milli umræðna og virðast lítt ígrundaðar og óundirbúnar. Í tillögu fjárlaganefndar er talað um að finna Þjóðskjalasafninu hentugra húsnæði. Slíkt húsnæði verði ekki hrist fram úr erminni og óljóst hvort samráð hafi verið haft við fagfólk á sviði skjalavörslu um þessi áform. Bent er á að frá því að hús Mjólkursamsölunnar við Laugaveg 162 var keypt árið 1985 undir Þjóðskjalasafnið liðu 13 ár þar til þar til síðustu skjöl safnsins voru flutt úr Safnahúsinu.

42 kílómetrar af skjölum

Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður situr í stjórn Félags héraðsskjalavarða. Hún segir það meira en að segja það að flytja Þjóðskjalasafnið. „Þú getur rétt ímyndað þér það. Það er talið að í safninu séu 42 kílómetrar af skjölum. Það er mjög ánægjulegt að Þjóðskjalasafnið er loksins farið að fá betri geymslur og góða renniskápa í geymslurnar. Það er bæði mjög kostnaðarsamt að innrétta húsnæði fyrir skjalasafn og uppfylla þær kröfur sem þarf, fá skápa og flytja skjölin. Það er mikil vinna við að flytja skjalasafn." En hvað vilja héraðsskjaalverðir að þingmenn geri?  „Það er gott að fá þessa umræðu fram" segir Svanhildur. „Mér finnst ekkert vit í því að samþykkja tillöguna á þessu stigi. Ef það ætti að fara fram með þessa tillögu þá þyrfti að undirbúa hana miklu betur."