Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Óttast komu glæpagengja

25.10.2011 - 17:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Kaupmenn í miðborginni hafa óskað eftir sérstakri viðbragðsáætlun frá innanríkisráðuneytinu vegna erlendra glæpagengja. Framkvæmdastjóri Miðborgarinnar okkar, segist óttast aukinn straum þeirra hingað til lands í kjölfar breytinga á Schengen-samkomulaginu um áramót.

Vopnað rán í úra- og skartgripaverslun á Laugavegi er enn óupplýst en átta dagar eru síðan vopnaðir menn réðust inn í verslunina og ógnuðu starfsfólki með skammbyssum. Lögreglan verst allra fregna af gangi rannsóknarinnar.

Frank Michelsen, eigandi verslunarinnar, átti símafund með forsvarsmönnum Rolex í Sviss í gær. Ránið kom þeim á óvart en lýst hefur verið eftir úrunum um allan heim. Þeir tengja ránið líku ráni í Danmörku þar sem markmið ræningjanna virðist einnig hafa verið að komast yfir dýr Rolex úr.

Óska eftir sýnilegri löggæslu
Kaupmenn í borginni vilja að grípa til frekari öryggisráðstafana vegna ránsins. Þeir hafa ritað lögreglustjóra bréf þar sem óskað er eftir sýnilegri löggæslu í borginni. Þá á að fjölga neyðarhnöppum í verslunum, að sögn Jakbos Frímanns Magnússonar, framkvæmdastjóra Miðborgarinnar okkar.

„Síðan erum við búin að óska sérstaklega eftir því að það verði búin til einhvers konar sérstök viðbragðsáætlun við því sem að gerist fyrsta janúar þegar undanþágum Schengen-samkomulagsins þegar þær renna út. Þá opnast gáttirnar fyrir tveimur meginvöggum óaldalýðs og glæpagengja,“ sagði Jakob í viðtali við Fréttastofu RÚV.

Þekkt og skæð glæpagengi
Jakob segist þarna eiga við þekkt og skæð glæpagengi frá Rúmeníu og Búlgaríu. Hann segist sannfærður um að þeir sem framið hafi ránið séu ekki héðan, fagleg vinnubrögð sem þessi þekkist ekki í öðrum ránum á Íslandi. Kaupmenn krefjist því aukinnar löggæslu.

„Fyrsta króna skattgreiðandans hefur alltaf verið hugsuð og á að vera hugsuð í að verja hann innrásum og árásum. Þá er forgangsröðunin ekki í lagi ef öryggistilfinningin er ekki til staðar,“ sagði Jakob Frímann að lokum.